Rúnar: Mikið ævintýri

Rúnar Kristinsson var stoltur af lærisveinum sínum.
Rúnar Kristinsson var stoltur af lærisveinum sínum. mbl.is/Ómar

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var brattur þrátt fyrir 4:0-tap gegn Celtic í síðari leik liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Celtic fór áfram samanlagt 5:0.

„Við vorum að spila við frábært fótboltalið og vissum að hlutirnir gætu þróast svona. Við ætluðum okkur að gera betur en fengum á okkur mark snemma sem var dýrt,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is eftir leik, en Celtic skoraði tvö mörk eftir hornspyrnu á fyrstu tuttugu mínútunum sem Rúnar var ósáttur með.

Hann segist stoltur af strákunum þrátt fyrir að róðurinn hafi verið þungur. „Þetta var mikið ævintýri en úrslitin hefðu mátt vera aðeins betri. Við ætluðum að njóta þess að spila leikinn og reyna að stríða þeim í leiðinni. En þetta er svolítið munurinn á rándýru atvinnumannaliði og íslensku félagsliði,“ sagði Rúnar.

Stuðningsmenn Celtic eru þekktir fyrir að vera háværir og það var engin undantekning á því í kvöld. „Það var mjög gaman strax frá byrjun enda hátt í 40 þúsund manns á vellinum að mér skilst. Stemningin var mikil og þeirra stuðningsmenn frægir fyrir að vera með mikil læti og þetta var skemmtileg upplifun fyrir alla,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert