Stjarnan lagði Blika - Afturelding hafði betur gegn FH

Úr leik Stjörnunnar og Breiðabliks í kvöld.
Úr leik Stjörnunnar og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Kristinn

Tveir leikir fóru fram í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Stjarnan sigraði Breiðablik 1:0 í Garðabæ og Afturelding vann dýrmætan sigur á FH í Hafnarfirði, 1:0.

Í Garðabæ áttust við Stjarnan og Breiðablik í toppbaráttu deildarinnar. Stjarnan hafði 24 stig fyrir umferðina í 1. sætinu en Breiðablik var í 3. sætinu með 19 stig og þurfti nauðsynlega á sigri að halda til þess að koma í veg fyrir að Stjarnan stingi hreinlega af í deildinni.

Leikurinn í Garðabæ fór rólega af stað, bæði lið virtust koma vel undirbúin fyrir leikinn og fá dauðafæri litu dagsins ljós. Hvorugt liðið virkaði sterkari aðilinn og liðin skiptust á að sækja. Þremur mínútum fyrir hálfleik, á 42. mínútu fékk Stjarnan hins vegar vítaspyrnu þegar Hildur Sif Hauksdóttir braut á hinni skæðu Hörpu Þorsteinsdóttur. Hún fór sjálf á punktinn og skoraði af öryggi.

Í síðari hálfleik virkuðu Stjörnukonur sterkari og sóknarleikur þeirra var beittari. Stjörnuvörnin var sterk og hélt Breiðabliki vel í skefjum.

Blikakonur gerðu hvað þær gátu til þess að jafna en herslumuninn vantaði hjá þeim til að klára sóknirnar. Hin fræga úrslitasending átti sér ekki stað. Úrslitin 1:0 og Stjarnan því komin í vænlega stöðu á toppi deildarinnar með sjö stiga forskot á Fylki í 2. sætinu með 20 stig. Breiðablik hefur 19 stig í 3. sæti.

Í Hafnarfirði áttust við Afturelding, í 9. sætinu með 3 stig og FH í 8. sætinu með 8 stig. Ljóst var að Mosfellsbæjarstúlkur yrðu hreinlega að sigra ætluðu þær sér að vera með í efstu deild að ári liðnu.

Aftureldingu tókst ætlunarverkið en sigurmarkið kom á 61. mínútu þegar Stefanía Valdimarsdóttir kom Aftureldingu yfir. FH-konur sóttu stíft það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að jafna. Afturelding hefur því opnað fallbaráttuna upp á gátt. Liðið hefur sex stig í 9. sæti en FH 8 stig í 8. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert