Bödker vill fá íslenskt veður í kvöld

Stjörnumenn eru búnir að skora 10 mörk í fyrstu þremur …
Stjörnumenn eru búnir að skora 10 mörk í fyrstu þremur Evrópuleikjum sínum. mbl.is/Eggert

Henrik Bödker, hinn danski aðstoðar- og markmanns þjálfari Stjörnunnar, segir í viðtali við danska netmiðilinn bold.dk að hann vonist eftir rigningu og roki, ekta íslensku veðri, í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Motherwell í Evrópudeild UEFA á Samsungvellinum í Garðabæ.

Þetta er seinni leikur liðanna en Stjarnan náði óvæntu jafntefli í fyrri leiknum í Skotlandi, 2:2, eftir að hafa lent 2:0 undir snemma leiks.

„Motherwell er áfram sigurstranglegri aðilinn, það er enginn vafi á því. Þó skoska deildin sé ekki byrjuð eru þeir með næstbesta lið Skotlands, á eftir Celtic. Við náðum frábærum úrslitum í fyrri leiknum og nú þurfa þeir að koma á gervigrasið okkar. Aldrei þessu vant vonast ég eftir því að við fáum ekta íslenskt veður í kvöld, rok og hellirigningu, því það getur komið okkur til góða," segir Bödker.

Hann er afar ánægður með frammistöðu Stjörnunnar í keppninni. „Við höfum staðið okkur betur en ég bjóst við. Þó Bangor sé ekki eitt af bestu liðum heims þá var frábært að vinna þá 8:0 samanlagt. Ég sé að norsk og sænsk lið eru í vandræðum með lið af sömu slóðum," segir hinn líflegi Henrik Bödker sem hefur fengið marga danska leikmenn til Garðabæjarliðsins á síðustu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert