„Enginn kann vel við gervigrasið“

Stjörnumenn mæta Motherwell á teppinu í kvöld.
Stjörnumenn mæta Motherwell á teppinu í kvöld. Eggert Jóhannesson

Skoska liðið Motherwell undirbýr sig af krafti fyrir leikinn gegn Stjörnunni í undankeppni Evrópudeildar UEFA í Garðabænum í kvöld, en fyrri leikurinn fór 2:2 ytra.

„Fyrri leikurinn var fyrsti keppnisleikurinn okkar frá síðasta tímabili og vonandi höfum við losnað við þann stirðleika sem honum fylgdi fyrir seinni leikinn og náð hagstæðum úrslitum þarð,“ sagði John Sutton, framherji Motherwell, fyrir leikinn gegn Stjörnunni í kvöld. Hann segist bjartsýnn fyrir heimsóknina í Garðabæinn.

„Við höfum hóp af leikmönnum sem eru fullfærir um að ná í þau úrslit sem við þurfum og vonandi verðum við ennþá í Evrópukeppninni þegar við vöknum upp í fyrramálið,“ sagði Sutton, sem telur aðstæður þó geta hentað Stjörnunni betur.

„Við erum ekki vanir að spila á gervigrasi, en það er engin ástæða fyrir okkur að örvænta. Gervigrasið er að ná frekari fótfestu í fótboltanum þó ég haldi að enginn kunni í raun og veru vel við það,“ sagði Sutton við skoska fjölmiðla.

Talið er að um 300 stuðningsmenn skoska liðsins hafi komið til landsins fyrir leikinn, en einungis 150 þeirra fengu miða á leikinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert