Guðmunda: Ekki hægt að skora á Alexu

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfyssinga, var skiljanlega himinsæl eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum bikarsins í fyrsta sinn eftir sigur á Fylki í kvöld. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma en í vítaspyrnukeppni var það Alexa Gaul, markvörður Selfoss, sem var hetjan.

„Þetta var ótrúlega sætur sigur og ótrúlega skemmtilegur leikur líka, fólk fékk mikið fyrir peninginn. Það gerir þetta ennþá sætara að vinna þetta í vítaspyrnukeppni,“ sagði Guðmunda í samtali við mbl.is, en Alexa varði þrjár spyrnur og skoraði úr einni, en Guðmunda tók síðustu spyrnuna sem tryggði sigurinn.

„Það var samt Alexa sem tryggði þetta allt saman, hún er okkar x-faktor í vítaspyrnum. Það er ekki hægt að skora á hana," sagði Guðmunda, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert