Kristján: „Áttum ekki meira skilið“

Daði Bergsson skoraði sigurmark Vals og er hér í baráttu …
Daði Bergsson skoraði sigurmark Vals og er hér í baráttu við Elías Má Ómarsson Keflvíking. Ljósmynd/Víkurfréttir

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum vonsvikinn eftir tap sinna manna gegn Val í kvöld, 1:2, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Hann viðurkenndi þó að liðið hefði ekki átt neitt meira skilið, miðað við frammistöðuna.

„Nei við áttum það ekki. Við byrjuðum leikinn afleitlega og fyrri hálfleikurinn var mjög dapur hjá okkur. Við byrjum seinni hálfleikinn mun betur samt og náðum að jafna nokkuð verðskuldað. Við reyndum auðvitað að vinna leikinn, en þegar við sóttum framar á vellinum fór skipulagið svolítið í vaskinn og þeir náðu að skora,“ sagði Kristján, sem viðurkennir að hugsanlega hafi menn verið með hugann við undanúrslitaleikinn í bikarnum gegn Víkingi á miðvikudaginn kemur.

„Óneitanlega, þegar svona stutt er á milli leikja. En allur okkar undirbúningur truflaðist þó ekki af bikarleiknum. Við vildum ná í 20 stig, en það vantaði bara of mikið í okkar leik til að það næðist,“ sagði Kristján við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert