Björgólfur: Margt furðulegt komið fram

Björgólfur Takefusa er fyrst og fremst spenntur að vera kominn …
Björgólfur Takefusa er fyrst og fremst spenntur að vera kominn heim. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er mikil gleði og sérstaklega mikil spenna fyrir þessu. Ég get ekki beðið eftir að komast á æfingu nú á eftir, hitta strákana og fara aftur í Þróttarabúninginn,“ sagði Björgólfur Takefusa í samtali við mbl.is nú rétt í þessu, en hann er genginn í raðir uppeldisfélags síns, Þróttar.

Hann hefur komið víða við og spilað með Fylki, KR, Víkingi og Val, en hann var síðast í herbúðum Þróttar sumarið 2003 og skoraði þá 10 mörk og varð markakóngur efstu deildar. Sama sumar féll hins vegar Þróttur.

„Það hefur held ég aldrei verið eins mikil stemning í kringum liðið og þegar ég var þarna síðast. Það var margt gott og skemmtilegt sem var í gangi þó það hafi verið ömurlegt að falla. Maður man bara eftir þessum tíma sem mjög skemmtilegum hjá félaginu,“ sagði Björgólfur.

Efni fundarins kom strax á netið

Björgólfur kemur á láni frá Fram, en hann samdi við Safamýrarliðið í vor. Hann kom við sögu í níu leikjum með liðinu en lenti svo úti í kuldanum, og spunnust upp margar sögur um hvernig það hefði átt sér stað.

„Mér finnst mjög furðulegt hvað hefur verið sagt. En þannig var að daginn eftir leikinn gegn Fylki þá hringir formaðurinn í mig og biður mig að hitta sig með klukkutíma fyrirvara rétt fyrir æfingu. Það eina sem fór fram á þeim fundi er að þeir áttu að skila því til mín frá þjálfurunum að þeir ætli sér ekki að nota mig meira. Ekkert meira en það,“ sagði Björgólfur, en strax komu þær fregnir að samningi hans hefði verið rift.

„Þetta var komið á netið nánast áður en fundurinn var búinn en það var aldrei rétt að búið væri að rifta samningi eða ég hafi sagt honum upp. Það var aldrei óskað eftir því á þessum fundi að rifta neinum samning og ekkert sem mundi verða gert strax, enda kom þetta mér mikið á óvart. Það er ekki það einfalt að rifta, búið bless,“ sagði Björgólfur, sem fer sem fyrr segir á lán til Þróttar.

Óvíst hvað tekur við

„Þeir sögðu að ef ég vildi fara þá yrði það bara skoðað í sameiningu. Svo var bara unnið út úr þessu og fundinn flötur á þessu máli. Ég fer því á lán því ég er ennþá samningsbundinn Fram þangað til í haust,“ sagði Björgólfur, sem er ekkert farinn að huga að framtíðinni eftir það.

„Ég viti ekki hvernig fer eftir þetta. En ég var alltaf spenntari og spenntari eftir því sem þetta nálgaðist og eins og ég segi þá get ég ekki beðið eftir að komast á æfingu á eftir,“ sagði Björgólfur Takefusa í samtali við mbl.is

Björgólfur í baráttu við Damir Muminovic fyrr í sumar.
Björgólfur í baráttu við Damir Muminovic fyrr í sumar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Björgólfur Takefusa í leik með Þrótti sumarið 2003 þegar hann …
Björgólfur Takefusa í leik með Þrótti sumarið 2003 þegar hann var markakóngur. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert