Leiknir áfram á sigurbraut - Skaginn og Selfoss með sigra

Arnór Snær Guðmundsson, ÍA og Þorsteinn Már Ragnarsson, Víkingi Ó. …
Arnór Snær Guðmundsson, ÍA og Þorsteinn Már Ragnarsson, Víkingi Ó. stökkva upp í skallabolta í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Fjórtándu umferð 1. deildar karla lauk í kvöld með fjórum leikjum. Leiknismenn sigruðu KV 2:1, Skagamenn höfðu betur gegn Víkingi Ó. 3:1, Selfoss vann Þrótt 2:1 í Laugardal og Haukar fóru létt með Tindastól 5:0. 

Leiknismenn hafa 33 stig og halda toppsæti deildarinnar. Þeir hafa sex stiga forskot á Skagamenn í 2. sæti sem nú sitja þar einir þar sem Þróttur tapaði gegn Selfossi í Laugardalnum.

Ólsarar fjarlægjast hins vegar Pepsi-deildarsætið með tapinu í kvöld. Þeir eru nú í 5. sæti, fimm stigum á eftir ÍA. KV-menn fóru niður um tvö sæti eftir tapið gegn Leikni þar sem bæði Selfoss og Haukar unnu sína leiki í kvöld. KV er í 9. sæti deildarinnar með 17 stig, stigi á eftir Selfossi í 8. sætinu.

Leiknismenn komu sigrinum í hús

Reykjavíkurslagur af bestu gerð fór fram í Breiðholti þegar Leiknismenn tóku á móti Vesturbæingum úr KV en lokatölur urðu 2:1 fyrir Breiðhyltingum í spennandi leik.

Leiknismenn byrjuðu leikinn mun betur og komust yfir með marki frá fyrirliða liðsins, Óttari Bjarna Guðmundssyni eftir 7. mínútna leik.

Vesturbæingar gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn í síðari hálfleik en markið skoraði Garðar Ingi Leifsson, beint úr aukaspyrnu á 66. mínútu. Leiknismenn voru fljótir að svara og skoruðu sigurmarkið einungis fjórum mínútum síðar og tryggðu sér dýrmæt stig í toppbaráttunni.

ÍA sigraði í Vesturlandsslagnum

Í Ólafsvík tóku heimamenn í Víkingi Ó. á móti Skagamönnum í sannkölluðum Vesturlandsslag og urðu lokatölur 3:1 fyrir ÍA í hörkuleik en bæði lið eiga raunhæfa möguleika á að komast upp um deild. 

Fyrsta mark leiksins skoraði Skagamaðurinn Garðar Gunnlaugsson á 16. mínútu. Þá tók við löng bið eftir næsta marki en flóðgáttir opnuðu hins vegar á síðustu 10 mínútum leiksins.

Markahrókurinn Hjörtur Hjartarson kom Skagamönnum í 2:0 á 84. mínútu með sínu fyrsta marki í sumar. Garðar Gunnlaugsson skoraði þriðja mark ÍA, og sitt annað mark í leiknum einungis fjórum mínútum síðar. Garðar hefur nú skorað 14 mörk í deildinni og er markahæstur.

Þorsteinn Már Ragnarsson, sem kom nýverið frá KR á láni lagaði stöðuna fyrir Ólafsvíkinga í lokin úr vítaspyrnu og þar við sat.

Frábær útisigur Selfoss

Í Laugardal vann Selfoss frábæran útisigur á Þrótti R. en lokatölur urðu 2:1 fyrir Selfyssingum. 

Björgólfur Takefusa var í byrjunarliði Þróttara eftir að hafa komið að láni frá Fram en það voru hins vegar Selfyssingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var að verki Luka Jagacic á 20. mínútu.

Aron Green jafnaði sex mínútum síðar fyrir Þróttara eftir laglegan samleik við Rafn Andra Haraldsson. Gestirnir frá Selfossi voru hins vegar öflugir í leiknum og uppskáru sigurmark á 63. mínútu. Aftur var þar á ferðinni Luka Jagacic fyrir Selfoss, með skalla eftir hornspyrnu á 63. mínútu leiksins.

Tindastóll engin fyrirstaða

Á Sauðárkróki fóru Haukar létt með botnlið Tindastóls 5:0 en mörk Hauka skoruðu þeir Zlatcko Krickic, Hilmar Geir Eiðsson, Brynjar Benediktsson og Andri Gíslason sem skoraði tvö síðustu mörk Hafnarfjarðarliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert