Þjálfari Lech Poznan ósáttur með gervigrasið

Marcin Kaminski hjá Lech Poznan og Stjörnumaðurinn Rolf Toft reyna …
Marcin Kaminski hjá Lech Poznan og Stjörnumaðurinn Rolf Toft reyna að vinna boltann í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Mariusz Rumak þjálfari Lech Poznan sagði á blaðamannafundi eftir leik Stjörnunnar og Lech Poznan í 3. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld að leikurinn í kvöld hafi verið mjög erfiður fyrir hans lið. Stjarnan vann leikinn 1:0.

Rumak minntist svo sérstaklega á gervigrasið sem Stjarnan spilar heimaleiki sína á og virtist ekki sáttur að þurfa að spila á gervigrasi. „Við kunnum ekki vel við okkur á gervigrasi því hraðinn á boltanum verður öðru vísi en á venjulegu grasi. Mér fannst samt að við hefðum átt að vinna þennan leik. Við fengum aragrúa af færum meðan Stjarnan fékk ekki nema 1-2 færi. Stjarnan skapaði sér ekki mikið og markið sem liðið skoraði kom eftir barnaleg mistök okkar.“

Rumak var nokkuð stuttur í spunann á blaðamannafundinum en lauk fundinum með þeim orðum að hann sagðist hlakka til síðari leiksins, sem verður í Póllandi næsta fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert