Leiknir stigi frá Pepsideild - KV á leið í 2. deild

Leiknismenn þurfa að bíða um sinn með að fagna sæti …
Leiknismenn þurfa að bíða um sinn með að fagna sæti sínu í Pepsi-deildinni. mbl.is/Eva Björk

Leiknir R. er einu stigi frá því að tryggja sér endanlega sæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á næsta ári eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við Víking í Ólafsvík í kvöld. KV er komið hálfa leið niður í 2. deild eftir 3:1 tap gegn Selfossi fyrir austan fjall. KA og Haukar gerðu markalaust jafntefli á Akureyri.

Að vanda var fylgst með gangi mála í öllum leikjum hér á mbl.is í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI þar sem sjá má allt það helsta sem tengist leikjunum.

Stórleikurinn fyrir vestan var ansi tíðindalítill. Með sigri hefðu Leiknismenn tryggt sér Pepsi-deildarsætið þó að enn séu þrjár umferðir eftir. Núna munar níu stigum á þeim og Víkingi sem er í 3. sæti. Víkingar eru fjórum stigum á eftir ÍA sem nú á leik til góða gegn BÍ/Bolungarvík á morgun.

KV er í næstneðsta sæti deildarinnar með 18 stig, sex stigum á eftir næsta liði sem er einmitt BÍ/Bolungarvík. Selfoss er með 25 stig eftir sigurinn í kvöld sem fer langt með að tryggja liðinu áframhaldandi veru í deildinni. Mörkin komu seint í leiknum en Selfoss komst í 3:0 áður en KV tókst að klóra í bakkann í uppbótartíma.

Haukar eru einnig með 25 stig eftir jafnteflið við KA sem er með 27 stig í 6. sætinu. KA-menn voru líklegri til að skora í kvöld og létu reyna á marksúlurnar auk þess sem þeir töldu sig svikna um mark þegar dómari leiksins taldi aukaspyrnu Hallgríms Mars Steingrímssonar ekki hafa farið inn fyrir marklínuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert