Bjarni: Erum í úrslitaleikjahrinu

Bjarni Guðjónsson, þjálfari Framara var gríðarlega ánægður með sína menn eftir 4:2 sigurinn á Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Fram sem komst úr fallsæti á kostnað Fjölnismanna sem töpuðu gegn FH í kvöld.

„Við vorum mjög daprir í fyrri hálfleik fyrir utan kannski fyrstu fimm mínúturnar. Við sköpuðum eitt ágætis færi en annars vorum við mjög daprir í fyrri hálfleik,“ sagði Bjarni sem segir sig hafa skerpt á nokkrum hlutum í hálfleik.

„Við gerðum lítið af þeim hlutum sem við vorum að vinna í, í vikunni fyrir leikinn. Við fórum yfir það í hálfleik og skerptum aðeins á áherslunum og fórum yfir það hvernig við ætluðum að vinna okkur inn í leikinn - strákarnir eiga hrós skilið fyrir - þeir vinna sig rosalega vel inn í leikinn og klára hann á stuttum kafla í seinni hálfeik, “ sagði Bjarni sem telur leikinn í dag vera einn af mörgum úrslitaleikjum.

„Við töluðum um það eftir KR leikinn að núna væru fimm leiki framundan og að þetta væri úrslitaleikjahrina sem við værum í. Það skemmtilega við það að þessir leikir skipta okkur allir svakalega miklu máli. Fjölnir var að spila við FH - við eigum að spila við Fjölni næst. Þessi leikur var gríðarlega mikilvægur, næsti leikur verður sennilega ennþá mikilvægari þegar við spilum við Fjölni,“ sagð Bjarni en nánar er rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert