Freyr sendi Þóru á vítapunktinn

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eva Björk

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson gaf grænt ljós á að markvörðurinn Þóra B. Helgadóttir tæki vítaspyrnuna gegn Serbíu. Eins athyglisvert og það nú er þá hafði Ísland ekki fengið vítaspyrnu í undankeppni HM að þessu sinni fyrr en í lokaleiknum gegn Serbíu í kvöld. 

Þóra hamraði boltann upp í þaknetið og skoraði sjötta mark Íslands í 9:1 sigri. „Það er svolítið sérstakt að við höfðum ekki fengið víti í allri riðlakeppninni. Sara Björk Gunnarsdóttir hefur verið vítaskytta allan tímann en svo kom vítið þegar við vorum komin í góða stöðu og mér fannst bara einhvern veginn eins og Þóra ætti að taka þetta. Ég gargaði því inn á völlinn og mér sýndist Sara vera pínu svekkt fyrst áður en hún áttaði sig á því hversu skemmtilegt augnablik þetta var. Þetta var bara skemmtilegt og Þóra sýndi að hún kann að sparka í bolta,“ sagði Freyr sem var afar ánægður með frammistöðuna í kvöld og skal engan undra. 

Íslenska liðið pressaði stíft snemma leiks og náði að skora tvívegis á fyrstu tíu mínútunum. Serbía minnkaði muninn í 4:1 eftir klukkutíma leik en þá svaraði Ísland með því að raða inn mörkum síðasta hálftímann. „Þessi leikur var eins og ég vildi hafa þetta í dag. Við töluðum um í vikunni að fá fram í okkar leik það helsta sem við höfum unnið með allt þetta ár. Við náðum því fram auk þess sem ákvarðanatakan á síðasta þriðjungi vallarins var góð en það er eitthvað sem ég hef tönnlast á undanfarið á æfingasvæðinu. Mér fannst þetta frábær leikur,“ benti Freyr á og hann viðurkenndi að hann hafi ekki séð það fyrir sér að íslenska liðið gæti rúllað serbneska liðinu upp með þeim hætti sem það gerði. Þess má geta að Ísland vann Serbíu 2:1 í fyrri leiknum ytra. 

„Nei ég sá það ekki fyrir mér. Ég sá Serbíu spila í fyrsta leiknum í riðlakeppninni þar sem liðið var mjög illa skipulagt og fékk 9:0 skell gegn Sviss. Eftir að hafa endurskipulagt sig hafa þær verið góðar í riðlinum og gerðu til dæmis 1:1 jafntefli gegn Danmörku. Ég átti því ekki von á þessum úrslitum,“ sagði Freyr ennfremur við mbl.is en hann var að ljúka sinni fyrstu undankeppni með landsliðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert