Gummi Hreiðars hættir hjá KR

Guðmundur Hreiðarsson, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson mynda þjálfarateymi íslenska …
Guðmundur Hreiðarsson, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson mynda þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Guðmundur segir landsliðið eiga hug sinn allan í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru 99% líkur á að ég verði ekki áfram í KR. Það eru engin illindi á bakvið það. Þetta er bara niðurstaðan,“ sagði Guðmundur Hreiðarsson sem verið hefur markmannsþjálfari bikarmeistara KR og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu undanfarin ár.

Guðmundur var í þjálfarateymi KR ásamt þeim Rúnari Kristinssyni og Pétri Péturssyni sem nú eru horfnir á brott. Bjarni Guðjónsson og Guðmundur Benediktsson voru kynntir sem nýir þjálfarar KR um mánaðamótin en þá kom ekkert fram um hver myndi gegna starfi markmannsþjálfara.

„Ég veit ekki hvað þeir eru að spá. Ég er bara að gæla við það að einbeita mér að landsliðinu og gera það enn betur en ég hef gert hingað til. KR er toppklúbbur og það hefur verið frábært að vinna þar með Pétri, Rúnari, Loga, Steina Gísla, og svo öllum markvörðunum sem hafa verið þar. Það hafa verið forréttindi en nú geri ég hlé á þessum kafla í lífi mínu, alla vega hvað KR varðar,“ sagði Guðmundur. Hann segir að of seint hafi verið komið að máli við sig um að starfa áfram sem markmannsþjálfari hjá KR.

„Þetta er ákvörðun sem ég tók sjálfur eftir að ég sá hlutina þróast í ákveðna átt. Bjarni vildi svo hitta mig og ræða málin en þá var ég búinn að taka ákvörðun. Markmannsþjálfun skiptir mjög miklu máli og markmannsþjálfari er hluti af þjálfarateyminu. Ef maður skynjar það að maður sé ekki hluti af teyminu þá er kannski ágætt að gera eitthvað annað. Ég skil mjög sáttur við KR og verð bara á pöllunum í staðinn,“ bætti hann við.

Guðmundur kveðst ekki útiloka að taka við sem markmannsþjálfari hjá öðru félagi í Pepsi-deildinni en segist ekki ætla að taka neina ákvörðun fyrr en eftir áramót. Landsliðið eigi hug sinn allan í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert