Ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið

Óskar Pétursson
Óskar Pétursson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið, enda hefur maður staðið í þessu síðan maður man eftir sér. Þetta er enn erfiðara vegna þess hve miklar taugar ég hef til Grindavíkur, og líka leiðinlegt því mér líst svo vel á hvað er í gangi hjá liðinu núna,“ sagði Óskar Pétursson, sem mun að öllum líkindum ekki verja mark Grindavíkur í 1. deild í knattspyrnu í sumar.

Óskar klárar grunnnám í hátækniverkfræði við HR í vor og ætlar í framhaldsnám í Svíþjóð sem hefst í byrjun ágúst. Óskar reiknar með að Grindavík finni sér nýjan aðalmarkvörð.

„Það er ekkert útilokað að ég spili með Grindavík fyrri hluta sumars en þetta er allt í mikilli óvissu,“ sagði Óskar sem verið hefur lykilmaður hjá Grindvíkingum. „Ég held að besta leiðin fyrir Grindvíkinga sé að finna einhvern sem gæti verið með liðinu allt tímabilið, og ég efast ekki um að þeir leiti að sterkum manni. Grindavík verður með feikisterkt lið á næsta ári,“ sagði Óskar sem ætlar ekki að spila fótbolta samhliða náminu í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert