Haukur kom Valsmönnum áfram

Haukur Páll Sigurðsson bjargaði Val.
Haukur Páll Sigurðsson bjargaði Val. mbl.is/Ómar

Valsmenn urðu fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu með því að gera jafntefli, 2:2, við Þrótt í lokaleik B-riðils í Egilshöllinni í kvöld.

Fyrr í kvöld settu Víkingar pressu á Valsmenn með því að sigra ÍR, 1:0, þar sem Haukur Baldvinsson skoraði sigurmarkið strax á 10. mínútu. 

Leiknir R. endaði með 8 stig, Víkingar voru komnir með 7 stig en Valsmenn voru þá með 6 stig fyrir leikinn gegn Þrótti, og nægði jafntefli vegna betri markatölu en Víkingur.

Útlitið var þó ekki bjart fyrir Valsmenn því Þróttarar náðu tveggja marka forystu. Kristinn Freyr Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Val og Haukur Páll Sigurðsson jafnaði gegn uppeldisfélagi sínu, 2:2, og kom Val þar með í undanúrslitin.

Fjölnir mætir Val og Leiknir mætir KR í undanúrslitunum en báðir leikirnir fara fram í Egilshöllinni næsta fimmtudagskvöld, 5. febrúar. Úrslitaleikur sigurliðanna verður síðan í Egilshöllinni mánudagskvöldið 9. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert