Náðu boltanum einu sinni af Eiði

Eiður Smári í leiknum í gær.
Eiður Smári í leiknum í gær. AFP

Eiður Smári Guðjohnsen er á allra vörum eftir góða frammistöðu sína í 3:0-sigri Íslands á Kasakstan í gærdag. Eiður Smári skoraði fyrsta marks leiksins á 20. mínútu og áttu Kasakarnir í mestu vandræðum með að stöðva hann.

Tölfræði Eiðs Smára úr leiknum er í hæsta gæðaflokki en af 36 sendingum hans í leiknum voru aðeins tvær sem rötuðu ekki á samherja. Það gerir rúmlega 94% heppnaðra sendinga. Feilsendingarnar tvær voru báðar tilraunir til þess að stinga boltanum inn fyrir vörn andstæðinganna.

Þá náðu Kasakarnir aðeins einu sinni boltanum af Eiði Smára í leiknum. Það var um miðjan fyrri hálfleik þegar tveir Kasakar pressuðu hann svo harkalega að Eiður Smári datt. Eiður Smári vildi fá eitthvað fyrir sinn snúð frá dómara leiksins sem taldi Kasakana hafa náð boltanum löglega.

Eiður Smári dró sig úr íslenska landsliðshópnum í morgun en eiginkona hans ber þeirra fjórða barn undir belti og á von á sér á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert