Virkilega góður dagur

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Ómar

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu, var að vonum ánægður með heildarútkomu laugardagsins í undankeppni Evrópumótsins þegar Ísland vann Kasakstan og öll hin liðin í riðlinum töpuðu tveimur stigum.

„Úrslitin voru mjög góð. Það er ekki hægt að neita því, þetta féll allt svolítið með okkur í gær og við erum komnir í mjög skemmtilega stöðu núna. Leikurinn á móti Tékkum í júní er orðinn algjör lykilleikur og getur komið okkur í frábæra stöðu ef við vinnum hann. Sérstaklega eftir úrslitin í gær. Þetta var virkilega góður dagur fyrir okkur og nú er að halda áfram," sagði Hannes þegar mbl.is ræddi við hann á flugvellinum í Astana í dag þar sem landsliðið var í þann veginn að fljúga til baka til Frankfurt.

Hannes sagði að úrslit gærdagsins hefðu ekki orðið eins og hann átti von á. „Já, þetta kom mér á óvart, sérstaklega jafnteflið í Tékklandi. Það kom mjög á óvart að Lettarnir skyldu ná í stig þar. Hinn leikurinn, á milli Hollendinga og Tyrkja, var ekki endilega eins óvæntur. Tyrkir eru sterk fótboltaþjóð og með lið sem getur alltaf dottið í gang. Það var því ekkert gefið að Holland myndi vinna alla heimaleikina sína. En það var jákvætt að bæði liðin skyldu tapa stigum í þeim leik, það fór eins og maður vonaðist eftir. Þetta var virkilega góður dagur fyrir okkur og nú er framhaldið í okkar höndum," sagði Hannes Þór Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert