Gríðarlega sáttir með þennan sigur

Heimir Guðjónsson ræðir málin við Davíð Þór Viðarsson fyrirliða FH.
Heimir Guðjónsson ræðir málin við Davíð Þór Viðarsson fyrirliða FH. mbl.is/Golli

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var vitaskuld verulega ánægður með að landa þremur stigum úr leik KR og FH í fyrstu umferð Pepsi deildarinnar í knattspyrnu sem fram fór á Alvogen vellinum í kvöld. Lokatölur í leiknum í kvöld urðu 3:1 fyrir FH í miklum baráttuleik. 

„Við erum að sjálfsögðu gríðarlega ánægðir með að koma hingað í kvöld á einn erfiðasta útivöll landsins og ná að taka þrjú stig. Við vorum vel skipulagðir og gáfum fá færi á okkur í fyrri hálfeik. Það var uppleggið að vera þéttir til baka og ég var ánægður með varnarleik liðsins í fyrri hálfleik. Við byrjuðum hins vegar seinni hálfleikinn ekki nógu vel. Við vorum of langt frá mönnum og þeir komust sanngjarnt yfir. Það var hins vegar sterkt að koma til baka og ná að klára leikinn" sagði Heimir í viðtali við mbl.is.

Veðrið hafði töluverð áhrif á leikinn

"Vindurinn og völlurinn settu aðeins strik í reikninginn í leiknum i kvöld og við náðum ekki að halda boltanum nægjanlega vel innan liðsins og ekki bara í leik yfirhöfuð. Það var svolítið mikið af innköstum og svona meira en gengur og gerist. Við fórum að beita löngum boltum einfaldlega vegna þess að það var hvorki veður né vallaraðstæður til þess að spila boltanum með jörðinni. Mér fannst hins vegar að við hefðum getað fært boltann hraðar á milli svæða í leiknum og vorum aðeins of mikið að spila of lengi í sama svæðinu. Í þau fáu skipti sem að við náðum því þá náðum við að skapa færi" 

„Það skyggir á sigurinn í kvöld að Jonathan Hendrickx meiðist alvarlega í leiknum. Mér skilst að það séu allar líkur á því að hann sé fótbrotinn sem er bæði skelfilegt fyrir okkur og ekki síst skelfilegt fyrir hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert