Mikilvægt að ná koma marki á þá

FH-ingar fagna marki gegn Fjölni um síðustu helgi.
FH-ingar fagna marki gegn Fjölni um síðustu helgi. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Enn eitt árið eru FH-ingar að búa sig undir Evrópuleik en þeir mæta í dag finnska liðinu SJK í fyrri viðureign liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Leikurinn fer fram á heimavelli finnska meistaraliðsins HJK í Helsinki og það er vegna þess að það er verið er að vinna endurbætur á heimavelli SJK. KR-ingar eiga ekki góðar minningar frá þessum velli, sem er gervigrasvöllur, en þeir steinlágu, 7:0, þegar liðin áttust við í Evrópudeildinni fyrir þremur árum. Nýtt gervigras var lagt á völlinn í síðasta mánuði.

Morgunblaðið sló á þráðinn til Davíðs Þórs Viðarssonar, fyrirliða FH-liðsins, í gær og spurði hann út í viðureignina gegn SJK en mikil eftirvænting ríkir í herbúðum finnska liðsins þar sem þetta er fyrsti Evrópuleikur félagsins.

„Það hefur farið vel um okkur hér í Helsinki, fínn matur og gott hótel og við erum staðráðnir í að ná í góð úrslit,“ sagði Davíð Þór við Morgunblaðið. FH tapaði fyrir þessu finnska liði, 2:0, á æfingamóti á Spáni í mars. Davíð var reyndar ekki með í þeim leik, var farinn heim þar sem eiginkona hans átti von á barni.

„Við rennum ekki alveg blint í sjóinn með þetta lið. Ég sá ekki leikinn en SJK er með sterkt lið og það vann okkur á sanngjarnan hátt. SJK er í þriðja sæti í deildinni og finnska deildin er bara orðin nokkuð sterk. Við hefðum getað verið heppnari með mótherja því líklega var þetta sterkasta liðið af þeim sex sem við gátum fengið. En við ætlum okkur svo sannarlega að komast áfram í keppninni og því er mikilvægt að ná góðum úrslitum og koma marki á þá. Ef þetta tekst myndi ég telja að við værum í góðum málum,“ sagði Davíð Þór.

Sjá allt um Evrópuleiki íslensku liðanna í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert