Svekkjandi tap í Frostaskjólinu

FH-ingar fagna marki sínu sem Kassim Doumbia skoraði.
FH-ingar fagna marki sínu sem Kassim Doumbia skoraði. mbl.is/Golli

„Færanýtingin var ekki alveg nógu góð hjá okkur. Mér fannst við fá töluvert mikið af færum í þessum leik en þeir fengu auðvitað færi líka,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 2:1 tap hans manns gegn KR í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar í kvöld. 

„Mér fannst við ekki þora að halda boltanum nógu vel innan liðsins í fyrri hálfleik. Við gerðum það betur í þeim síðari en það er svekkjandi að detta út. Sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var ef við tökum færin, bæði lið áttu góða kafla en við fengum fullt af færum.“ FH-ingum hefur ekki gengið vel í bikarnum undanfarin ár, en þeir komust síðast í úrslit árið 2010 þegar þeir unnu KR 4:0 í úrslitaleik. Heimir hefur ekki skýringu á slæmu gengi síðustu fimm ár. „Það er erfitt að segja til um það strax eftir leik en auðvitað er þetta gríðarlega svekkjandi.“

FH-ingar taka á móti SJK Seinäjoki í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA á fimmtudag í Hafnarfirði. Heimir var ekki á því að fyrri leikurinn úti í Finnlandi hefði setið í hans mönnum í kvöld. „Ferðalagið var frekar auðvelt fyrir leikmennina og sá leikur sat ekki í okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert