„Vantaði meiri gæði í sóknarleikinn“

Það var hart barist þegar KR og Breiðblik áttust við …
Það var hart barist þegar KR og Breiðblik áttust við á Alvogen-vellinum í kvöld. mbl.is / Þórður A.

Bjarni Guðjónsson, þjálf­ari KR, var ekki alls kostar sáttur við spila­mennsku liðsins þegar liðið gerði marka­laust jafn­tefli við Blika á Al­vo­gen-vell­in­um í 13. um­ferð Pepsi deild­ar karla í knatt­spyrnu í kvöld. Bjarna fannst vanta upp á sköpunargáfu og gæði í aðgerðir liðsins í síðasta þriðjungi vallarins. 

„Ég er ekki sáttur með að fá aðeins eitt stig á heimavelli. Við viljum vinna alla leiki á heimavelli og því eru þetta viss vonbrigði. Okkur gekk ágætlega að halda boltanum og færa hann á milli kanta. Það var hins vegar fát á okkur og ekki nógu mikil yfirvegun þegar við vorum komnir inn á síðasta þriðjung vallarins.“

„Skiptingarnar áttu að skapa meiri vídd í sóknarleiknum og það gekk þokkalega upp. Óskar Örn og Almarr komu inn á kantana og Hólmbert Aron upp á topp. Ég hefði viljað fá fleiri fyrirgjafir af því að við erum með sterka menn í teignum, en við náðum ekki að nýta okkur það nógu vel.“

„Þeir voru mjög þéttir til baka og það var erfitt að brjóta þá á bak aftur. Þeir hafa verið sterkir varnarlega í sumar og hafa haldið markinu oft hreinu. Við vissum að það yrði erfitt að opna á, en við eigum vopn til að opna varnir andstæðinganna og hefðum átt að gera betur í kvöld. Eyjamenn mæta líklega með sama leikskipulag í leikinn á fimmtudaginn og við verðum að fara yfir það í aðdraganda þess leiks hvað við getum gert betur til þess að skapa marktækifæri.“ sagði Bjarni Guðjónsson í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert