„Ef það er titilþurrð hjá FH á þessari öld...“

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þeir voru gríðarlega skipulagðir og spiluðu sterkan varnarleik. Við fengum einhver færi en hefðum mátt opna þá meira. Við skorum tvö góð mörk og kláruðum leikinn og þeir fengu ekki mikið af færum,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga við mbl.is í kvöld eftir 2:1 sigurinn á Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Þetta var ekki fullkominn leikur hjá FH og stundum vantaði meira bit í sóknarleikinn en þeir gerðu nóg til þess að fá stigin þrjú.

„Mér fannst vanta aðeins upp á sendingar en þegar við náðum tempói í spilið, gerðum þetta í fáum snertingum þá náum við að opna þá. Við gerðum nóg í dag. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur, það er alltaf erfitt að koma í Keflavík og spila. Við erum sáttir með þetta og tökum einn leik í einu. “ sagði Heimir en FH-ingar komu sér á topp deildarinnar með sigrinum - en liðið hefur jafn mörg stig og KR en betri markatölu.

Heimir segir aðspurður um það hvort það sé meiri pressa á FH að landa Íslandsmeistaratitlinum í ár að það sé alltaf pressa í Hafnarfirði en uppruni hennar að mati Heimis er innan bæjarmarkanna.

„Það er alltaf pressa á FH. Eina pressan á FH er pressan sem við setjum á okkur sjálfir. Að sjálfsögðu viljum við vera að keppa um titlana sem eru í boði á Íslandi. Ef við værum ekki að því ættum við að snúa okkur að öðru,“ sagði Heimir.

FH vann síðast titil árið 2012 þegar liðið varð Íslandsmeistari og að mati Heimis er engin titilþurrð hjá Hafnfirðingum.

„Ef það er titilþurrð hjá FH á þessari öld þá held ég að menn ættu að spá hvað hin liðin geta þá sagt,“ sagði Heimir kátur í Keflavík í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert