„Hann var kannski ekki í bestu leikæfingunni“

Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson hugsi á hliðarlínunni.
Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson hugsi á hliðarlínunni. Hilmar Bragi

„Mér fannst liðið spila heilt yfir nokkuð góðan leik. Í fyrri hálfleik vorum við samt of passífir varnarlega. Við hefðum getað verið grimmari á þá. Mér fannst við gera það betur í seinni hálfleik þrátt fyrir að við töpum honum 1:0. Við vorum miklu meira inni í leiknum í seinni hálfleik. Við leyfðum þeim eiginlega að vera með boltann allan fyrri hálfleikinn,“ sagði Jóhann Birnir Guðmundsson, annar þjálfari Keflavíkur eftir 2:1 tapið gegn FH í gær

„Þeir skapa nánast bara tvö færi í öllum leiknum. Það er ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir að lið skapi sér færi en á móti liði eins og FH þá refsa þeir bara grimmilega en ég man ekki eftir því að Sindri (Kristinn Ólafsson) hafi þurft að verja mikið,“ sagði Jóhann Birnir við mbl.is í kvöld.

„Það er óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir málin eftir 7:1 tap. Við búum í litlu samfélagi og mönnum líður alltaf illa þegar illa gengur. Strákarnir eru langflestir héðan en við ræddum að sjálfsögðu málin um það hvað við gátum gert betur,“ sagði Jóhann en liðið tapaði eins og kunnugt er 7:1 gegn Víkingum í síðustu umferð og spilaði augljóslega mun betur í kvöld en þá.

„Það þurfti ekki mikið til,“ sagði Jóhann Birnir.

Aðspurður segir Jóhann Birnir að bandaríski framherjinn Chukwudi Chijindu, eða „Chuck“ hafi ekki verið neitt spes leikæfingu þegar hann gekk í raðir Keflvíkinga í glugganum.

„Mér fannst hann standa sig alveg ágætlega. Við vorum þannig séð lítið í sókn og hann var ekki mikið í boltanum. Það getur verið erfitt sem senter að sýna einhverja frábæra tilburði þegar liðið er ekki mikið í sókn. Hann verður bara í betri leikæfingu eftir því sem á líður. Hann var kannski ekki í bestu leikæfingunni þegar hann kom hingað en hann verður flottur,“ sagði Jóhann Birnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert