Insa og Arends leystir undan samningi hjá Keflavík

Richard Arends var í basli hjá Keflavík.
Richard Arends var í basli hjá Keflavík. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Richard Arends og Kiko Insa, sem leikið hafa með Keflavík í Pepsi-deild karla í sumar voru í dag leystir undan samningi hjá félaginu, en Haukur Ingi Guðnason, annar af þjálfurum liðsins, staðfesti þetta í Akraborginni í dag.

Arends lék með FC OSS í Hollandi áður en hann samdi við Keflavík fyrir tímabilið, en það hefur ekki alveg verið þrautalaust hjá honum. Keflvíkingar væntu mikils af honum, en félagið hefur nú ákveðið að leysa hann undan samningi.

Sömu sögu má segja af spænska leikmanninum Kiko Insa, en hann var áður á mála hjá Víking Ólafsvík í 1. deildinni.

Haukur Ingi staðfesti þetta í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu 977, en Keflavík hefur styrkt sig ágætlega í glugganum og er liðið þegar komið með Chuck Chijindu sem hefur undanfarin ár leikið með Þór auk þess sem liðið er búið að fá Martin Hummervoll og Paul Bignot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert