Stjarnan á enn von

Jóna Kristín Hauksdóttir og Erna Guðjónsdóttir í kapphlaupi um boltann …
Jóna Kristín Hauksdóttir og Erna Guðjónsdóttir í kapphlaupi um boltann á Selfossi í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Draumur Stjörnunnar um að verja Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu kvenna lifir eftir dramatískar lokamínútur í leikjum kvöldsins í 16. umferð Pepsideildarinnar.

Breiðabliki dugði sigur á Selfossi til að tryggja sér titilinn endanlega en þar varð niðurstaðan 1:1-jafntefli. Blikakonur fengu dauðafæri í uppbótartíma til að tryggja sér sigurinn en fóru illa með það.

Á sama tíma vann Stjarnan 2:1-sigur á ÍBV með marki í blálokin. Breiðablik er því með 44 stig á toppi deildarinnar en Stjarnan 39, nú þegar tvær umferðir eru eftir. Breiðablik mætir næst Þór/KA á Akureyri þann 7. september.

Þór/KA komst upp í 3. sæti deildarinnar með öruggum sigri á Val, 4:0, og Fylkir vann fallna Þróttara, 6:0.

Leikir kvöldsins:
Selfoss - Breiðablik, 1:1
(Dagný Brynjarsdóttir 63. - Telma Hjaltalín Þrastardóttir 59.)
Stjarnan - ÍBV, 2:1
(mark 13., 90. - mark 78.)
Fylkir - Þróttur R., 6:0
(mark 33., 39., 43., 45., 58., 67.)
Valur - Þór/KA, 0:4
(mark 69., 80., 83., 85.)

-------------------------------

Leikjum lokið.

90. Selfoss. Leik lokið á Selfossi þar sem liðin gerðu 1:1-jafntefli. Blikakonur daufar í bragði yfir að hafa ekki tryggt sér titilinn fyrir framan þann fjölda áhorfenda sem fylgdi þeim í Kópavoginn. Þær eiga tvö tækifæri eftir.

90. Garðabær. (2:1) Þvílíkar sviptingar! Blikar í dauðafæri sem þær klúðra en í staðinn skorar Stjarnan á lokamínútunni gegn ÍBV og tryggir sér 2:1-sigur. Þetta Íslandsmót er ekki búið.

90. Selfoss. Vá. Aldís Kara og Telma sluppu aleinar gegn Sandiford og hefðu getað tryggt Breiðabliki sigur en Aldísi mistókst að fara til hliðar við Sandiford sem handsamaði boltann.

88. Selfoss. Henry í dauðafæri fyrir Selfoss en Sonný Lára bjargaði frábærlega.

85. Laugardalur. (0:4) Þór/KA búið að skora þrjú mörk á fimm mínútum gegn 10 Valskonum.

82. Selfoss. Aldís Kara Lúðvíksdóttir var að koma inná hjá Blikum. Kannski hún geti gulltryggt þeim titilinn? Rakel Hönnudóttir fór af velli.

80. Laugardalur. (0:2) Þór/KA að komast í 2:0 gegn 10 Valskonum.

78. Garðabær. Tíðindi af Samsung-vellinum, heldur betur! ÍBV var að jafna metin og eins og staðan er núna verður Breiðablik Íslandsmeistari eftir korter.

76. Selfoss. Donna Kay Henry var að komast í ágætt færi fyrir Selfoss og átti skot meðfram jörðinni sem Sonný Lára sá hins vegar við. Staðan enn 1:1.

69. Laugardalur. (0:1) Þór/KA að komast yfir gegn Val. Eins og staðan er núna í leikjunum eru Akureyringar á leið upp fyrir Selfoss í 3. sætið.

63. Selfoss. (1:1) Selfyssingar grimmir eftir markið og búnir að jafna strax! Þetta er fyrsta markið sem Breiðablik fær á sig síðan í maí! Dagný Brynjarsdóttir skoraði markið þegar hún fylgdi á eftir skoti Evu Lindar sem Sonný Lára hafði varið í markvinkilinn og út.

59. Selfoss. (0:1) Blikar komast yfir með marki Telmu Hjaltalín Þrastardóttur! Bríet Mörk missti boltann yfir sig á miðjum vallarhelmingi Selfoss og Telma var þá sloppin alein gegn Sandiford markverði, og kláraði færið af öryggi.

52. Selfoss. Úff. Blikar óhemju nálægt því að komast yfir. Svava Rós átti skalla af stuttu færi í þverslána og yfir.

50. Selfoss. Mér skilst að það sé verið að setja áhorfendamet hér á Selfoss-velli, í leik hjá kvennaliðinu. Það eru 607 áhorfendur mættir og þar af er auðvitað hellingur af Blikum sem hafa látið vel í sér heyra.

46. Seinni hálfleikur. Þá er seinni hálfleikur að hefjast í leikjunum. Fylkir er 4:0 yfir gegn Þrótti, Stjarnan 1:0 yfir gegn ÍBV, en það er markalaust hér á Selfossi og í Laugardalnum.

45. Selfoss. Hálfleikur á Selfossi og staðan er enn markalaus. Ef Stjarnan vinnur ÍBV dugar jafntefli Blikum ekki til að landa Íslandsmeistaratitlinum í kvöld.

44. Selfoss. Hætta við mark Selfyssinga þegar fyrirgjöf Svövu Rósar fór af varnarmanni í átt að markinu en Sandiford kastaði sér eins og köttur og greip boltann áður en hann fór yfir línuna.

39. Árbær. (2:0) Fylkiskonur auka muninn í 2:0 gegn botnliðinu.

34. Selfoss. Góð sókn hjá heimakonum. Guðmunda átti fyrirgjöf frá hægri yfir á fjærstöng þar sem Eva Lind Elíasdóttir var ein og óvölduð en boltinn skoppaði illa fyrir hana og hún setti hann með lærinu yfir markið.

33. Árbær. (1:0) Fylkir er kominn yfir gegn föllnum Þrótturum.

28. Selfoss. Enn er markalaust hér á Selfossi og leikurinn er raunar í góðu jafnvægi.

18. Selfoss. Dauðafæri hjá Breiðabliki! Svava Rós gerði mjög vel í að renna boltanum þvert fyrir markið frá hægri á Telmu Hjaltalín sem var í galopnu færi á fjærstöng en hitti boltann afar illa og skaut framhjá.

17. Selfoss. Hallbera Gísladóttir var nærri því að skora sjálfsmark þegar hún skallaði boltann að eigin marki, en í þverslána og yfir. Blikar búnir að halda hreinu í 11 leikjum í röð og það er nú kannski óþarfi að þeir breyti því sjálfir.

13. Garðabær. (1:0) Stjörnukonur voru að komast yfir gegn ÍBV. Engin bikarþynnka á þeim bænum. Mig vantar upplýsingar um markaskorara.

6. Selfoss. Blikar sækja meira á upphafsmínútunum. Fanndís átti rétt í þessu skot sem sveif rétt yfir mark Selfyssinga.

2. Selfoss. Telma Hjaltalín fékk langa sendingu yfir vörn Selfoss og átti skot rétt framhjá markinu. Góð tilraun. 

1. Leikur hafinn! Þá er boltinn farinn að rúlla hér á Selfossi, og ætti að gera slíkt hið sama í hinum þremur leikjunum.

0. Það hefur talsverður fjöldi Kópavogsbúa brugðið sér hingað til að verða vitni að tímamótum í sögu Breiðabliks, verði þau á annað borð hér í kvöld. Kópacabana-sveitin hefur verið frábær í sumar.

0. Selfyssingar eru ef til vill enn að jafna sig á tapinu gegn Stjörnunni í bikarúrslitaleiknum á laugardag, því það var sárt. Ætli þær sér að halda þriðja sæti deildarinnar er hins vegar enginn tími til að slaka á, því Selfoss er með tveggja stiga forskot á Þór/KA og fjögurra stiga forskot á ÍBV.

0. Staðan er ósköp einföld á toppnum. Breiðablik dugar að vinna einn af þremur leikjum sem liðið á eftir, til að verða Íslandsmeistari. Blikar eru með 43 stig en Stjarnan 36 stig í 2. sæti.

0. Góðan dag og velkomin með okkur hér á mbl.is. Ég er staddur á Selfossi þar sem Breiðablik getur orðið Íslandsmeistari en mun flytja fréttir af stöðu mála í öðrum leikjum. Best er að endurhlaða síðuna til að sjá nýjustu tíðindi.

Selfoss: Chante Sandiford - Donna Kay Henry, María Rós Arngrímsdóttir, Bríet Mörk Ómarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Guðmunda Brynja Óladóttir, Heiðdís Sigurjónsdóttir, Anna María Friðgeirsdóttir, Eva Lind Elíasdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir, Erna Guðjónsdóttir.

Breiðablik: Breiðablik: Sonný Lára Þráinsdóttir - Fjolla Shala, Guðrún Arnardóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Jóna Kristín Hauksdóttir, Rakel Hönnudóttir, Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Telma Þrastardóttir, Fanndís Friðriksdóttir.

----------------------------

Stjarnan: Sandra Sigurðardóttir - Ana Cate, Shannon Woeller, Rachel Pitman, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Kristrún Kristjánsdóttir, Guðrún Karítas Sigurðardóttir, Lára Kristín Pedersen, Jaclyn Softli, Bryndís Björnsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir.

ÍBV: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir - Sóley Guðmundsdóttir, Natasha Anasi, Díana Dögg Magnúsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Guðrún Bára Magnúsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Esther Rós Arnarsdóttir, Cloe Lacasse, Sabrína Lind Adolfsdóttir.

----------------------------

Fylkir: Eva Ýr Helgadóttir - Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, Andreea Laiu, Aivi Luik, Hulda Hrund Arnarsdóttir, Jasmín Erla Ingadóttir, Eva Núra Abrahamsdóttir, Lucy Gildein, Sandra Sif Magnúsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir.

Þróttur R.: Mckenzie Sauerwein - Gabríela Jónsdóttir, Anna Garðarsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir, Bergrós Lilja Jónsdóttir, Eva Þóra Hartmannsdóttir, Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir, Anna Birna Þorvarðardóttir, Jade Flory, Sigurrós Eir Guðmundsdóttir, Harpa Lind Guðnadóttir.

----------------------------

Valur: Þórdís María Aikman - Inga Dís Júlíusdóttir, Mist Edvardsdóttir, Hildur Antonsdóttir, Vesna Elísa Smiljkovic, Lilja Dögg Valþórsdóttir, Málfríður Anna Eiríksdóttir, Agla María Albertsdóttir, Heiða Dröfn Antonsdóttir, Berglind Rós Ágústsdóttir, Katia Maanane.

Þór/KA: Roxanne Barker - Gígja Valgerður Harðardóttir, Silvía Rán Sigurðardóttir, Karen Nóadóttir, Kayla Grimsley, Sandra María Jessen, Lára Einarsdóttir, Klara Lindberg, Anna Rakel Pétursdóttir, Sarah Miller, Lillý Rut Hlynsdóttir.

Stjarnan þarf að vinna ÍBV og aðra leiki sem eftir …
Stjarnan þarf að vinna ÍBV og aðra leiki sem eftir eru til að eiga möguleika á titlinum. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert