Ævar Ingi er að skoða sín mál

Ævar Ingi Jóhannesson í leik gegn Fjölni í bikarkeppninni í …
Ævar Ingi Jóhannesson í leik gegn Fjölni í bikarkeppninni í sumar. Skapti Hallgrímsson

Ævar Ingi Jóhannesson, leikmaður KA, er eftirsóttur af liðum í Pepsi-deildinni eftir góða frammistöðu með norðanmönnum í 1. deild karla í sumar. Ævar var valinn efnilegastur á lokahófi félagsins á dögunum, en hann skoraði níu mörk í nítján leikjum og hefur verið að festa sig í sessi í U21 árs landsliði Íslands.

„Það er ekkert komið á hreint og ég er að skoða mín mál. Er bara að tala við KA núna um hvernig mín mál standa og það mun liklega koma eitthvað meira í ljós eftir að ég kem heim úr U21 ferðinni,“ sagði Ævar Ingi í samtali við mbl.is.

Hann hefur verið í byrjunarliði U21 árs landsliðsins í fyrstu þremur leikjum liðsins í undankeppni Evrópumótsins og er í hópnum sem ferðast til Úkraínu þar sem íslensku strákarnir mæta heimamönnum á fimmtudag.

Félög eins og Stjarnan, Breiðablik og Valur eru á meðal félaga sem sögð eru vera að fylgjast með stöðu mála hjá Ævari, sem fluttist til Reykjavíkur í haust og hóf nám í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands. Aðspurður segir hann það ekki endilega geta ráðið úrslitum hvar hann spili næsta sumar.

„Menn hafa alveg verið í skóla fyrir sunnan og spilað með KA áður. Vonandi fer eitthvað að skýrast í þessu fljótlega, en ég er bara að tala við KA núna og að skoða mín mál. Við sjáum til hvað kemur út úr því en núna er ég bara að hugsa um þetta U21 árs verkefni,“ sagði Ævar Ingi við mbl.is.

Aron Elís Þrándarson og Ævar Ingi Jóhannesson í leik með …
Aron Elís Þrándarson og Ævar Ingi Jóhannesson í leik með U21 árs landsliðinu í haust. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert