Kippir sér ekkert upp við markaleysið

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í knattspyrnu, segir að þrátt fyrir að stóra markmiðið um að komast í lokakeppni EM sé í höfn séu menn alls ekki orðnir saddir fyrir síðustu tvo leikina í undankeppninni gegn Lettum og Tyrkjum.

„Vonandi náum við að klára þetta og taka fyrsta sætið í riðlinum sem getur komið okkur upp í þriðja styrkleikaflokkinn fyrir lokakeppnina. Svo það er eitthvað til að keppa að og við þurfum að fara einbeittir inn í þessa leiki,“ sagði Kolbeinn í samtali við mbl.is á landsliðsæfingu í dag.

Kolbeinn gekk í sumar til liðs við franska félagið Nantes frá Ajax í Hollandi, en hann á enn eftir að skora fyrir sitt nýja félag. Hefur það engin áhrif á hann?

„Fyrir mig er mikilvægast að spila og að sjálfsögðu vil ég skora. Þetta hefur erfitt í byrjun, þetta er öðruvísi deild og maður þarf að koma sér inn í þetta betur. Ég hef farið í gegnum margt á mínum ferli þó ég sé þokkalega ungur, svo ég fer ekki að kippa mér upp við þetta,“ sagði Kolbeinn, og er búinn að fá smjörþefinn af stemningunni sem verður í Tyrklandi í gegnum fyrrum liðsfélaga sinn hjá Ajax, Jasper Cillessen, sem ver mark hollenska landsliðsins.

„Stemningin í Tyrklandi er alltaf frábær og sá leikur verður snarbilaður. Ég talaði við markmann Ajax núna sem var að spila á sama velli og hann sagði að það hafi verið rugluð stemning þarna. Það verður gaman að fara þangað,“ sagði Kolbeinn, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

Kolbeinn Sigþórsson á landsliðsæfingu í dag.
Kolbeinn Sigþórsson á landsliðsæfingu í dag. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert