Leikmenn á öllum stigum glíma við geðsjúkdóma - fyrirlestur

Ingólfur Sigurðsson lék með Víkingi Ólafsvík í sumar og átti …
Ingólfur Sigurðsson lék með Víkingi Ólafsvík í sumar og átti sinn þátt í að gera liðið að 1. deildarmeistara. mbl.is/Þórður Arnar

„Ég heiti Ingólfur, spila fótbolta með Víkingi Ólafsvík, og ég er með geðsjúkdóm. Ég er geðsjúklingur. Þegar geðlæknirinn sagði þetta við mig á sínum tíma átti ég bágt með að trúa því, vegna þess að hvernig gat ég, svona flottur íþróttastrákur, verið með geðsjúkdóm?“

Svona hófst fyrirlestur knattspyrnumannsins Ingólfs Sigurðssonar á málþingi um andlega líðan íþróttamanna, sem haldið var á dögunum. Fyrirlesturinn má sjá í heild sinni hér að neðan. Þar segir Ingólfur frá glímu sinni við geðræna erfiðleika, allt frá því að hann fór fyrst að finna fyrir þeim sem 14 ára atvinnumaður í Hollandi.

Ingólfur steig fyrst fram í fyrra þegar hann sagði sögu sína í Sunnudagsmogganum. Síðan þá hefur orðið mikil vakning í samfélaginu varðandi andlega líðan íþróttamanna, og margir stigið fram sem hafa svipaða sögu að segja og Ingólfur sagði í viðtalinu í fyrra:

EM-farar og fleiri höfðu samband

„Ein manneskja spurði mig hvort ég vildi virkilega vera að þessu, með tilliti til þess hve harður og karllægur fótboltaheimurinn væri, þar sem hvergi má veikan blett sýna og lögmálið um að hinir sterkustu komist af gildir. Það var ekki síst þetta sem staðfesti það fyrir mér að gera þetta, að stíga fram og segja að ég væri með geðsjúkdóm,“ sagði Ingólfur í fyrirlestri sínum.

„Eflaust fannst einhverjum að ég væri að gefa höggstað á mér, vegna þess að í fótbolta eru allir steyptir í sama mót og það á bara að fara þetta á hörkunni. Það hentar örugglega sumum, en sem betur fer er íþróttafólk mismunandi. Frá því að ég sagði sögu mína hafa tugir íslenskra fótboltamanna haft samband við mig og sagst glíma við eitthvað svipað. Í þessum hópi eru atvinnumenn, landsliðsmenn sem eru að fara á EM, og leikmenn úr öllum deildum Íslands,“ bætti hann við.

Fyrirlesturinn í heild má sjá hér að neðan. Þar bendir Ingólfur meðal annars á hve skilningur þjálfara á andlegri líðan leikmanna geti verið mikilvægur. Hann hafi notið slíks skilnings í Ólafsvík í sumar, sem leikmaður Víkings undir stjórn Ejub Purisevic, og það hafi gagnast báðum aðilum.

Málþing um andlega líðan íþróttamanna - Ingólfur Sigurðsson from ISI on Vimeo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert