Vitum nákvæmlega við hverju er að búast

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði gegn Zvezda þegar liðin mættust í fyrra, …
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði gegn Zvezda þegar liðin mættust í fyrra, og fagnar hér markinu. mbl.is/Kristinn

„Við vitum nákvæmlega hvað við erum að fara út í. Við erum búnar að skoða þetta lið mjög vel, og þær örugglega okkur, og þetta ætti að verða mjög góður leikur,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, markahrókur Stjörnunnar, fyrir leikinn við Zvezda frá Rússlandi í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Leikurinn er sá fyrri hjá liðunum í 32-liða úrslitum, en þau mætast í Rússlandi 15. október. Leikið verður á Samsungvellinum í Garðabæ á morgun kl. 19. Þar tapaði Stjarnan 5:2 fyrir Zvezda í fyrra, einnig í 32-liða úrslitum, og einvígið fór samtals 8:3 fyrir þær rússnesku.

„Þær eru með svipað lið í fyrra, og við líka. Við ætlum ekki að gefa þeim nein færi fyrir aftan okkar vörn, þéttum miðsvæðið og sækjum svo hratt þegar færi gefst. Við eigum að skora gegn þessu liði,“ sagði Harpa.

Með hraða sem við höfðum ekki séð

„Þær eru ennþá með Nahi, Fílabeinsstrendinginn sem stríddi okkur vel í fyrra [innsk: skoraði fernu], en núna vitum við nákvæmlega við hverju er að búast,“ sagði Harpa, en Josee Nahi skoraði fernu í Garðabænum í fyrra:

„Hún er með hraða sem við höfðum ekki séð, og það sem við gerum núna er að við föllum aftar á völlinn. Hún er líka gríðarlega sterk, og við náðum henni bara ekki niður, og við höfum unnið í að leysa það. Hún er klárlega þeirra styrkleiki sóknarlega, og við þurfum að vera með hana í vasanum,“ sagði Harpa.

Tæpur mánuður er liðinn frá lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu en Harpa segir það ekki há leikmönnum. Sjálf hefur hún í millitíðinni spilað tvo leiki með landsliði Íslands:

„Við vorum með nokkra leikmenn í landsliðinu en svo hefur stór hluti hópsins bara verið að æfa hérna saman. Við erum með mjög sterkan æfingahóp svo formið ætti ekki að vera neitt síðra en í lok Íslandsmótsins. Við erum líka búnar að taka nokkra æfingaleiki og erum í fínum málum,“ sagði Harpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert