Jón Guðni til sænsku meistaranna

Jón Guðni Fjóluson og Rúnar Már Sigurjónsson léku saman hjá …
Jón Guðni Fjóluson og Rúnar Már Sigurjónsson léku saman hjá Sundsvall en svo verður ekki á næstu leiktíð. Ljósmynd/gifsundsvall.se

Miðvörðurinn Jón Guðni Fjóluson hefur komist að samkomulagi við sænska meistaraliðið Norrköping og verður kynntur sem nýjasti leikmaður félagsins á morgun, þriðjudag.

Þetta fullyrðir sænska blaðið Expressen á vef sínum nú undir miðnætti.

Jón Guðni er fyrsti leikmaðurinn sem Norrköping kaupir eftir að hafa landað titlinum í haust. Hann verður þar með liðsfélagi Arnórs Ingva Traustasonar, sem fór á kostum með Norrköping á leiktíðinni, en Arnór Ingvi hefur reyndar verið orðaður við nokkur félög í sterkari deildum eftir tímabilið.

Jón Guðni var lykilmaður í liði Sundsvall á síðustu leiktíð en kaus að halda á nýjar slóðir eftir tímabilið. Hann mun hafa ferðast til Norrköping í dag til að gangast undir læknisskoðun, og á svo að verða kynntur til leiks á morgun. Jóni Guðna er ætlað að fylla skarð David Boo Wiklander sem fékk ekki nýjan samning hjá Norrköping eftir tímabilið.

Jón Guðni er 26 ára gamall og á að baki 7 A-landsleiki fyrir Íslands, síðast gegn Eistlandi í mars á þessu ári. Hann lék með Fram í efstu deild á Íslandi árin 2007-2011, en fór svo til Germinal Beerschot í Belgíu. Þaðan var hann seldur til Sundsvall sumarið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert