Fjármagn rennur til aðildarfélaganna

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið, líkt og áður, að hluti af þeim tekjum sem sambandið hafði af Meistaradeild Evrópu 2014/2015 skuli renna til félaga í öllum aðildarlöndum UEFA til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga. 

Uppgjör vegna Meistaradeildarinnar sem lauk vorið 2015 hefur nú farið fram og fá íslensk félög um 40 milljónir króna í sinn hlut til barna- og unglingastarfs.  Samkvæmt ákvörðun UEFA skulu öll framlög vegna Meistaradeildar UEFA til barna – og unglingastarfs renna til félaga í efstu deild.  Framlag UEFA skiptist því á milli félaga í Pepsi-deild karla.

Stjórn KSÍ hefur samþykkt að leggja til um 38 milljónir króna til viðbótar til barna-og unglingastarfs sem skiptist á milli aðildarfélaga í öðrum deildum og utan deilda. Samþykkt stjórnar KSÍ byggir á samráði við aðildarfélögin og almennri sátt um skiptingu fjármunanna. 

Greiðslan til félaganna skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokks karla og kvenna.  Samtals er því framlag til barna- og unglingastarfs fyrir árið 2015 áætlað um 78 milljónir króna.

Sjá má hvernig greiðslunni er skipt á milli félaga í frétt á vef KSÍ hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert