„Besti leikmaður Íslands allra tíma“

Eiður Smári Guðjohnsen í leik með landsliðinu.
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með landsliðinu. mbl.is/Golli

Matthías Vilhjálmsson og Hólmar Örn Eyjólfsson leikmenn norska meistaraliðsins Rosenborg fagna komu Eiðs Smára í norsku úrvalsdeildina en Eiður samdi í dag við Molde eins og fram hefur komið.

„Hann er besti leikmaður Íslands allra tíma og með sinn árangur er hann eitt stærsta nafnið sem hefur komið í norska fótboltann. Hann er mjög klókur leikmaður, hefur virkilega fína tækni og er reynslumikill,“ segir Matthías í viðtali við netútgáfu norska blaðsins Stavanger Aftenblad.

„Hann hefur verið í landsliðinu síðan ég var 10 ára og hefur verið stórstjarna í 20 ár. Það eru frábærar fréttir fyrir deildina þegar svona leikmaður kemur. Ef hann verður í góðu formi fram á sumarið gæti það orðið slæmar fréttir fyrir Rosenborg. Ég hef aldrei leikið á móti honum en ég mun gera allt sem ég get til að stöðva hann,“ segir Hólmar.

Þeir Hólmar og Matthías spiluðu með Eiði Smára í Abu-Dhabi í janúar þegar íslenska landsliðið mætti Finnum og Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vináttuleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert