21 árs en eins og hann sé 35

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis. mbl.isÁrni Sæberg

„Þetta eru þrjú frábær stig á móti klassaliði Vals, sem er búið að vera frábært í allan vetur og var lið sem ég spáði titli,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir 2:1-sigur liðsins á Val á Hlíðarenda í kvöld í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

„Við spiluðum frábærlega í dag og Grafarvogurinn studdi frábærlega við bakið á okkur. Það var Grafarvogurinn sem fékk þessi þrjú stig,“ sagði Ágúst en stuðningsmenn Fjölnis létu vel í sér heyra í stúkunni.

Miklar breytingar hafa orðið á liði Fjölnis frá síðustu leiktíð og meðal annars hófu fjórir nýir, erlendir leikmenn leikinn í dag, auk þess sem sá fimmti kom inná sem varamaður. Ágúst var ánægður með þau svör sem hann fékk frá þessum mönnum í fyrsta leik:

„Ég fór klárlega með óvissu í þennan leik en nýju mennirnir stóðu sig frábærlega, ásamt þeim sem að fyrir voru. Þetta var heilt yfir mjög ánægjulegt, en þetta er rétt að byrja,“ sagði Ágúst. Blaðamaður bað hann að tjá sig sérstaklega um danska miðvörðinn Tobias Salquist, sem virðist virkilega spennandi leikmaður. Ágúst tók undir það:

„Þetta er frábær leikmaður og frábær karakter. Hann er 21 árs en það mætti halda að hann væri 35 ára. Hann er bara eins og herforingi, stóð sig mjög vel í dag. Hann er náttúrulega búinn að vera með okkur í nokkurn tíma núna og ég vissi því vel að þetta er flottur strákur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert