Ég vil bara vinna sem flesta leiki

Þórir Guðjónsson skorar fyrsta mark sitt og Fjölnis í sumar.
Þórir Guðjónsson skorar fyrsta mark sitt og Fjölnis í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þórir Guðjónsson virðist kunna vel við sig á Hlíðarenda en hann skoraði bæði mörk Fjölnis í kvöld þegar liðið vann 2:1-sigur á Val í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Þórir lék áður með Val en eftir að hann fór aftur til Fjölnis fyrir tímabilið 2014 hefur hann nú skorað á Hlíðarenda þrjú sumur í röð. „Það er bara plús að svo sé,“ sagði Þórir, sem fagnaði hins vegar í fyrsta skipti sigri í Fjölnisbúningnum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þetta Valslið er virkilega öflugt og þess vegna er virkilega jákvætt að ná þessum sigri. Við sýndum mikinn karakter og baráttu í þessum leik,“ sagði Þórir, sem var ánægður með nýja liðsfélaga sína í leiknum en alls spreyttu fimm erlendir leikmenn sig í leiknum í fyrsta sinn í Pepsi-deildinni:

Alltaf verið þessi stemning

„Mér fannst þeir koma virkilega vel út úr þessum leik og vonandi halda þeir bara svona áfram, og hjálpa liðinu að ná sem flestum stigum. Mér fannst þeir allir mjög góðir í þessum leik,“ sagði Þórir, nýbúinn að fagna með miklum látum og gleðisöngvum inni í búningsklefa Fjölnis. Sama stemning var á vellinum strax eftir leik, þegar leikmenn fögnuðu með fjölmennu stuðningsmannaliði sínu:

„Það hefur alltaf verið þessi stemning hjá liðinu, alla vega síðan ég kom í Fjölni. Það var mjög gaman að sjá hversu margir létu sjá sig uppi í stúku í kvöld og ég vona að það haldi bara áfram,“ sagði Þórir, sem gæti vart hafa beðið um betri byrjun á mótinu; tvö mörk og sigur á sterku liði Vals. Hann skoraði sjö mörk í 16 deildarleikjum í fyrra en hvað ætlar hann sér nú?

„Þetta var mjög gott í kvöld, en ég hef ekki sett mér nein persónuleg markmið. Ég vil bara vinna sem flesta leiki, það er mitt markmið. Við ætlum að enda eins ofarlega og hægt er,“ sagði Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert