Fjölnir hóf sumarið á flottum sigri

Igor Jugovic úr Fjölni og Guðjón Pétur Lýðsson úr Val …
Igor Jugovic úr Fjölni og Guðjón Pétur Lýðsson úr Val í leiknum í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Fjölnir fagnaði flottum 2:1-sigri á Val á Hlíðarenda í kvöld í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Þórir Guðjónsson skoraði bæði mörk Fjölnismanna en Valsmenn voru nálægt því að jafna metin í lokin.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum. Rolf Toft fékk bestu færin til að byrja með en fór illa með þau, sérstaklega algjört dauðafæri eftir að Sigurður Egill Lárusson hafði unnið boltann af Mario Tadejevic, vinstri bakverði Fjölnis. Sigurður kom boltanum á Toft í miðjum teignum en hann skaut yfir markið. 

Fjölnismenn fengu líka sín færi en Valsmenn voru hættulegri. Sigurður Egill og Guðjón Pétur Lýðsson, sem er mættur aftur á Hlíðarenda frá Breiðabliki, komust í skyndisókn eftir hálftíma leik og voru klaufar að ná ekki að klára hana með því að komast í dauðafæri. Sigurður Egill átti svo skot í utanverða stöngina eftir frábæra fyrirgjöf frá Toft á 36. mínútu.

Nánast strax í kjölfarið á stangarskotinu komust Fjölnismenn yfir. Danski kantmaðurinn Martin Lund Pedersen fékk sendingu frá Gunnari Má Guðmundssyni og var kominn einn gegn Ingvari Þór Kale, vinstra megin í teignum, fór til hliðar við hann og var felldur af Ingvari svo vítaspyrna var réttilega dæmd. Þórir Guðjónsson skoraði úr vítinu, þó að Ingvar giskaði á rétt horn.

Þórir komst svo í frábært færi til að skora annað mark rétt áður en flautað var til hálfleiks, en vippaði yfir Ingvar og framhjá markinu.

Valsmenn misstu Daða Bergsson meiddan af velli eftir klukkutíma leik en hann hafði reyndar lítið náð að sýna fram að því. Sigurður Egill skapaði hins vegar enn og aftur hættu á 66. mínútu þegar hann slapp einn gegn Þórði Ingasyni markverði Fjölnis, en Þórður lokaði vel á hann.

Þórir skoraði svo sitt annað mark 20 mínútum fyrir leikslok, þegar hann dró boltann til sín í vítateignum eftir skalla frá Gunnari Má og skilaði honum neðst í vinstra hornið.

Valsmenn skoruðu sitt fyrsta mark í sumar og minnkuðu muninn á 80. mínútu þegar Guðjón Pétur Lýðsson skoraði með góðu, viðstöðulausu skoti utan teigs.

Miðvarðapar Fjölnis lofar mjög góðu, myndað af þeim Daniel Ivanovski og ungum Dana, Tobias Salquist. Sá danski er mjög vel spilandi leikmaður. Ivanovski fór hins vegar meiddur af velli þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks. Valsmenn náðu að skapa mikla hættu á lokamínútunum, meðal annars með þrumuskoti Kristins Freys sem Þórður varði frábærlega, en gestirnir náðu að halda forskotinu og sigla þremur stigum í höfn.

Valur 1:2 Fjölnir opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert