Mótið er bara rétt að byrja

Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. mbl.is/Eva Björk

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var skiljanlega heldur brúnaþungur eftir leik ÍBV og ÍA í Pepsi-deild karla í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV vann 4:0 og byrjun Skagamanna því ekki eins og best verður á kosið.

„Mér fannst við byrja ágætlega, kannski fyrstu fjórar mínúturnar. Síðan erum við skyndilega lentir 2:0 undir eftir korter og það er klárlega ekki sú byrjun sem við vonuðumst eftir. Það gefur tóninn hjá þeim, þeir komast á lagið og gera svo þriðja markið. Þá var brekkan orðin ansi brött en við reyndum að klífa hana en gekk illa,“ sagði Gunnlaugur eftir leikinn í Eyjum í dag.

„Við þurftum að járna okkur upp, koma til baka og reyna að skora mark til að búa til spennu og byggja ofan á það. Það kom ekki og þetta reyndist svona frekar auðvelt hjá Eyjamönnum í dag og það eru mikil vonbrigði,“ sagði Gunnlaugur þegar blaðamaður spurði hann hvað Skagamenn hefðu rætt um í leikhléi en þeir voru þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik.

„Við getum ýmislegt lært af þessum leik. Núna er það bara næsti leikur og mótið er bara rétt að byrja. Vissulega var þetta samt ekki sú byrjun sem við ætluðum okkur þegar við komum til Eyja í dag,“ sagði Gunnlaugur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert