Það hefur enginn unnið mótið í maí

Bjarni Jóhannsson var ánægður með sína menn í ÍBV í …
Bjarni Jóhannsson var ánægður með sína menn í ÍBV í dag. mbl.is/Skapti

Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, var í skýjunum eftir leik ÍBV og ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. ÍBV vann leikinn 4:0 og er því í efsta sæti deildarinnar, eins og staðan er núna.

„Þetta var rosalega lífleg byrjun. Það var smá ströggl fyrstu mínúturnar en við náum marki snemma og síðan var ferskleikinn okkar megin. Við náðum frábærum hraðaupphlaupum og þetta var vel gert hjá okkur því það er erfitt að spila gegn Skagamönnum,“ sagði Bjarni eftir leikinn í Eyjum í dag.

Bjarni sagði að það væri fátt sem hann gæti verið ósáttur með eftir leik eins og þennan. „Ég er ósáttur með að við fáum fjögur gul spjöld eftir að við skoruðum þrjú mörk, það var vont. Stundum verður að fórna þessu.“

Byrjunin á Íslandsmótinu minni á sumarið 1997. Þá var Bjarni þjálfari ÍBV, liðið sigraði ÍA í fyrstu umferð og varð Íslandsmeistari. Bjarni hló þegar hann var spurður hvort eitthvað svipað væri í kortunum núna:

„Maður man það nú varla. En þetta var lífleg byrjun, við fáum ekki á okkur mark og skorum mörg mörk. Maður getur ekki beðið um meira. Það er gott loftið hérna í Eyjum. Við skulum samt vera rólegir, það hefur enginn unnið mótið í maí,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert