Leikir kvöldsins - fróðleiksmolar

Sævar Þór Gíslason í leik Fylkis og Stjörnunnar fyrir sextán …
Sævar Þór Gíslason í leik Fylkis og Stjörnunnar fyrir sextán árum þar sem hann skoraði þrennu. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Fylki og KR fær Víking í heimsókn í Reykjavíkurslag. 

KR og Víkingur mættust fyrst á Íslandsmóti fyrir 98 árum en það eru aðeins 20 ár síðan Stjarnan og Fylkir áttust við í fyrsta skipti í efstu deild. Skoðum aðeins söguna á bakvið þessar tvær viðureignir:

Stjarnan – Fylkir

Samsung-völlur mánudag kl. 19.15.

*Stjarnan vann báða leiki liðanna í fyrra, 2:0 í Árbæ og 1:0 í Garðabæ.

*Stjarnan hefur unnið alla fjóra deildaleiki liðanna síðustu tvö ár.

*Félögin mættust fyrst 1996. Helgi Björgvinsson tryggði Stjörnunni 1:0 sigur í Garðabæ og þau gerðu 0:0 jafntefli í Árbæ.

*Stjarnan hefur unnið 10 af 18 viðureignum félaganna í efstu deild. Fylkir hefur unnið 5 en þrisvar orðið jafntefli.

*Halldór Orri Björnsson hefur skorað fyrir Stjörnuna í sjö leikjum gegn Fylki í deildinni undanfarin sjö ár.

*Stærstu tölur eru 5:1 sigur Fylkis á Fylkisvelli árið 2000 þar sem Sævar Þór Gíslason skoraði þrennu.

*Garðar Jóhannsson, fyrrum Stjörnumaður, er nú í herbúðum Fylkis. Eyjólfur Héðinsson er kominn til Stjörnunnar en hann lék með Fylki áður en hann fór í  atvinnumennsku í Svíþjóð fyrir tíu árum.

KR – Víkingur R.

Alvogen-völlurinn mánudag kl. 19.15.

*KR vann báða leikina í fyrra, 5:2 á KR-velli þar sem Gary Martin og Óskar Örn Hauksson gerðu 2 mörk hvor, og 3:0 í Fossvogi þar sem Sören Frederiksen gerði tvö mörk. Nú leikur Martin með Víkingi.

*KR hefur unnið síðustu sjö viðureignir félaganna í efstu deild, frá 2007 þegar Gunnlaugur Jónsson, núverandi þjálfari ÍA, gerði sigurmarkið í Fossvoginum, 1:0.

*KR hefur jafnframt unnið 13 af 14 leikjum þeirra á milli í efstu deild frá 1999.

*Víkingur vann fyrsta leik félaganna á Íslandsmóti, 3:2, árið 1918. Frá þeim tíma hefur KR unnið 56 af 88 leikjum þeirra á milli, Víkingur 21 en 11 hafa endað með jafntefli.

*KR hefur tvisvar unnið Víking 7:0 á Íslandsmóti, 1935 og 1955. Mesti markaleikur var 7:2 sigur KR 1993 þar sem Ómar Bendtsen og Atli Eðvaldsson gerðu 2 mörk hvor fyrir KR en Guðmundur Steinsson bæði mörk Víkings.

*Dofri Snorrason, sem er orðinn einn af leikjahæstu núverandi leikmönnum Víkings, er uppalinn KR-ingur og lék með KR til 2012.

Gary Martin mætir sínum gömlu félögum í KR í kvöld.
Gary Martin mætir sínum gömlu félögum í KR í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert