Fram missir markvörð

Sigurður Hrannar Björnsson er farinn frá Fram.
Sigurður Hrannar Björnsson er farinn frá Fram. Fram.is

Karlalið Fram í knattspyrnu hefur undanfarnar vikur styrkt sig gríðarlega fyrir komandi átök í 1. deildinni en samtals hafa átján leikmenn samið við félagið fyrir tímabilið. Einn þeirra yfirgaf félagið í dag.

Ásmundur Arnarsson tók við Fram eftir síðasta tímabil en hann hefur verið duglegur við að fá inn leikmenn og í raun skipt út flestum leikmönnum sem léku með liðinu á síðasta tímabili.

Sigurður Hrannar Björnsson, sem gekk til liðs við Fram á láni í febrúar frá Víking Reykjavík, hefur ákveðið að rifta samningnum og snýr því aftur í Víking. Hann er samningsbundinn félaginu út þessa leiktíð.

Fram fékk til sín Stefano Layeni frá Leikni Fáskrúðsfirði á dögunum og er útlit fyrir að hann spili sem aðalmarkvörður í sumar.

Sigurður, sem er 22 ára gamall, á tvo leiki að baki með Víking, einn í bikar og einn í deild. Hann hefur þá leikið með Hetti og Tindastól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert