„Þetta voru tvö töpuð stig“

FH-ingar fagna Emil Pálssyni eftir að hann kom þeim yfir …
FH-ingar fagna Emil Pálssyni eftir að hann kom þeim yfir í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Miðvörðurinn Bergsveinn Ólafsson átti góðan leik í vörn FH-inga sem gerði 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni í toppslag Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld.

„Þetta voru tvö töpuð stig. Við vorum með leikinn í okkar höndum en við fengum á okkur svekkjandi mark undir lokin. Við hefðum átt að gera betur. Mér fannst við heilt yfir betri í leiknum og vorum í raun klaufar að hafa ekki gert út um leikinn með því að skora annað mark eða þá verjast betur,“ sagði Bergsveinn við mbl.is eftir leikinn.

„Deildin er jöfn og spennandi og eflaust hafa mörg lið fagnað þessum úrslitum en við verðum bara að einbeita okkur að næsta leik. Við horfum fram á veginn og það þýðir ekkert að vera að svekkja sig of mikið á þessu.

Stjarnan hefur byrjað mótið gífurlega vel og hún verður klárlega í baráttu um titilinn í ár en það verðum við líka. Það eru fleiri lið sem geta blandað sér í þessa baráttu og í raun geta allir unnið alla,“ sagði Bergsveinn Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert