Bróðir Abels til Eyja

Abel Dhaira lést í vetur en nú er bróðir hans …
Abel Dhaira lést í vetur en nú er bróðir hans kominn til Vestmannaeyja. mbl.is/Árni Sæberg

Knattspyrnuráð ÍBV hefur boðið markmanninum Eric Dhaira frá Úganda til landsins, til þess að æfa og spila með 2. flokki félagsins og með liði KFS í 3. deildinni, en hann er bróðir Abels Dhaira, markvarðar Eyjamanna, sem lést í vetur eftir skammvinna baráttu við krabbamein.

Í fréttatilkynningu frá ÍBV segir að Abel hafi komið að máli við stjórnina undir lok síðasta tímabils og langað til að taka bróður sinn með sér þegar hann kæmi aftur til Eyja frá Úganda. Þar segir enn fremur:

„Það var stór draumur Abels að fá bróðir sinn til Íslands með sér og leyfa honum að kynnast landi og  þjóð sem og að æfa með 2. flokki ÍBV. 

Eftir að Abel lést ákvað knattspyrnuráð ÍBV að bjóða Eric til landsins og dvelja hér út tímabilið. Eric hefur nýlega gert samning við félagsliðið Soana í Úganda og fengum við þá til þess að lána hann út tímabilið svo Eric fái að upplifa draum Abels. Eric, sem á nokkra landsleiki með yngri landsliðum Úganda, hefur nú fengið leikheimild með KFS og 2. flokki ÍBV. Eric er væntanlegur til Eyja í lok vikunnar.

Við í knattspyrnuráði ÍBV erum mjög stoltir að ná að uppfylla þennan draum Abels heitins."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert