Haukar og Afturelding með stórsigra

Lið Hauka sem vann C-deild Lengjubikarsins í vor fer vel …
Lið Hauka sem vann C-deild Lengjubikarsins í vor fer vel af stað í 1. deildinni. Ljósmynd/haukar.is

Haukar og Afturelding unnu stórsigra í leikjum sínum í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og þá vann Fjölnir líka öruggan sigur á Augnabliki.

Haukar tóku á móti Álftanesi á Ásvöllum og sigruðu 5:0. Haukar sendu mbl.is eftirfarandi lýsingu á gangi mála:

Það var Margrét Ástvaldsdóttir sem skoraði fyrsta markið með glæsilegri aukaspyrnu á 8. mínútu og Alexandra Jóhannsdóttir bætti svo við öðru marki á 37. mínútu. Verðskulduð forysta í hálfleik.

Þriðja mark Hauka var sjálfsmark í byrjun seinni hálfleiks og svo bætti Alexandra við sínu öðru marki á 73. mínútu. Heiða Rakel Guðmundsdóttir skoraði svo fimmta mark Hauka á 83. mínútu.

Afturelding burstaði nýliða Gróttu, 10:1, á Varmárvelli eftir að staðan var 3:0 í hálfleik. Leikskýrsla leiksins hefur enn ekki verið skráð og því eru markaskorarar ekki á hreinu.

Fjölnir tók á móti Augnabliki og vann 3:0 í Grafarvogi. Harpa Lind Guðnadóttir, sem kom til Fjölnis frá Þrótti í vetur, skoraði tvö markanna og Stella Þóra Jóhannesdóttir eitt.

Haukar eru með 6 stig eftir  tvo leiki í B-riðli, Grindavík og Keflavík eru með 3 stig eftir einn leik og mætast á mánudag, Fjölnir , Afturelding og Augnablik eru með 3 stig eftir tvo leiki en Álftanes og Grótta eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert