Kári og Raggi búnir að vera frábærir

Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason á æfingu íslenska …
Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason á æfingu íslenska landsliðsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Maður þarf að vera klár í það hlutverk sem maður fær og ég verð eins vel undirbúinn og ég get í það hlutverk sem mér er ætlað,“ segir Sverrir Ingi Ingason, hinn 22 ára gamli miðvörður Lokeren í Belgíu, sem er á leið með Íslandi á EM í knattspyrnu í Frakklandi.

Sverrir lék sinn fyrsta A-landsleik í janúar 2014 og hefur alls leikið fjóra leiki fyrir liðið, síðast gegn Grikklandi í mars þar sem hann skoraði eitt marka Íslands í 3:2-sigri. Hann lék 32 leiki með Lokeren í belgísku úrvalsdeildinni í vetur, eftir að hafa komið til liðsins frá Viking í Noregi í janúar í fyrra. Áður var Sverrir leikmaður Breiðabliks. Lokeren hafnaði í 11. sæti í Belgíu en rétt missti af sérstöku umspili um sæti í Evrópudeildinni.

„Hjá mér persónulega fannst mér ganga þokkalega í vetur. Gengi liðsins var svolítið upp og niður, ekki eins og við höfðum vonast eftir, en ég festi mig vel í sessi í liðinu og spilaði mikið og tel að ég hafi klárlega tekið sjálfur framförum sem leikmaður,“ segir Sverrir þegar blaðamaður ræddi við hann á Laugardalsvelli í dag.

Finnst ég eiga eitthvað inni

Rétt eftir að tímabilinu lauk fékk hann svo bestu fréttir ævinnar, þegar hann var valinn sem einn af 23 leikmönnum Íslands til þátttöku á EM í Frakklandi. Margir miðverðir börðust um að komast í hópinn en hvaða eiginleikar telur Sverrir að það hafi verið sem skiluðu honum sætinu á endanum?

„Þjálfararnir hafa fylgst vel með því í vetur hvað maður var að gera þannig að maður hlýtur að hafa verið að gera margt rétt. Ég var valinn í tvo síðustu landsliðshópa sem hægt var að velja mig í og hlýt að hafa komið vel inn í hópinn og spilað fína leiki, þó að mér finnist ég eiga eitthvað inni. Það er líka fínt, og maður getur þá sýnt það næst þegar maður fær tækifæri,“ segir Sverrir. Hann jánkar rólega aðspurður hvort einn af hans hæfileikum felist ekki í því að vera ákveðinn leiðtogi, þrátt fyrir að vera ungur að árum:

„Þegar ég spila þá reyni ég alltaf að koma með allt sem ég hef fram að færa. Ég spilaði sem fyrirliði U21-landsliðsins og er maður sem getur drifið liðið áfram, en það er fullt af þannig karakterum í liðinu. Ég held að það sé ekkert aðalatriði hvað mig varðar, en að sjálfsögðu tek ég alla mína styrkleika með mér inn á völlinn og reyni að nýta þá til að bæta liðið hverju sinni.“ Markið í Grikklandi hefur svo varla skemmt fyrir?

„Ég veit það nú ekki. Auðvitað er gaman að skora og maður gleymir aldrei fyrsta landsliðsmarkinu, eflaust telur það eitthvað að það er alltaf gott að hafa leikmenn sem geta skorað mörk. Það hefur reyndar ekki verið neitt vandamál hjá okkur hingað til,“ sagði Sverrir.

Getur allt gerst og ég þarf að vera klár

Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson hafa myndað miðvarðapar Íslands í tveimur síðustu undankeppnum og koma til með að gera það áfram á EM ef að líkum lætur. En hvaða augum lítur Sverrir sitt hlutverk á mótinu?

„Kári og Raggi eru búnir að spila frábærlega, ásamt öllu liðinu, og maður sér enga ástæðu til þess að breyta því núna. En það getur auðvitað allt gerst fram að mótinu, og í mótinu, og ég þarf bara að vera eins klár og ég get – að fara inn í mótið eins og ég sé að fara að spila alla leiki, hvort sem ég spila ekkert, eina mínútu eða allar mínútur,“ sagði Sverrir.

Nú eru innan við 20 dagar þar til Ísland spilar sinn fyrsta leik á EM, gegn Portúgal í St. Etienne 14. júní kl. 19. Sverrir segist ekki farinn að finna mikið fyrir því hve stutt sé í að mótið hefjist:

„Það hefur gengið þokkalega að vera rólegur. Maður er bara með fókusinn á æfingarnar hérna, að reyna að koma sér í eins gott stand og maður getur. Svo förum við til Noregs á sunnudaginn og þá kemur hópurinn allur saman. Þá förum við að færast nær Frakklandi í öllu sem við gerum, og fiðringurinn að aukast, en einbeitingin er góð núna og menn eru bara nokkuð rólegir og niðri á jörðinni,“ sagði Sverrir. Fjölskylda og vinir eru sjálfsagt ekki síður spennt en miðvörðurinn:

„Það er verið að spyrja að hinu og þessu og hrósa manni fyrir að fá að taka þátt í þessu, og það er bara partur af þessu og gaman. Vonandi náum við bara að gera íslensku þjóðina stolta úti í Frakklandi,“ sagði Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert