Ívar tryggði Víkingi sigur

Vladimir Tufegdzic, leikmaður Víkings, reynir að leika á Arnó Snæ …
Vladimir Tufegdzic, leikmaður Víkings, reynir að leika á Arnó Snæ Guðmundsson, varnarmann ÍA. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur úr Reykjavík lyfti sér frá hópi neðstu liða Pepsi-deildar karla í knattspyrnu með því að sigra Skagamenn, 3:2, í bráðfjörugum leik á Víkingsvellinum í kvöld.

Ívar Örn Jónsson skoraði sigurmarkið með hörkuskoti á lokamínútu leiksins eftir að Skagamenn höfðu komist tvisvar yfir á fyrstu fimm mínútunum.

Víkingar eru komnir með 8 stig en Skagamenn sitja eftir í tíunda sætinu með 4 stig.

Upphafsmínútur leiksins voru hreint ótrúlegar en eftir fimm mínútur var búið að skora þrjú mörk og staðan orðin 2:1, Skagamönnm í hag.

Jón Vilhelm Ákason kom þeim yfir eftir aðeins 86 sekúndur með stórglæsilegu skoti af 25 m færi eftir skallasendingu Ásgeirs Marteinssonar, 0:1.

Strax á 4. mínútu jöfnuðu Víkingar. Martin Svensson, sem lék sinn fyrsta deildarleik með Víkingi í kvöld, komst að endamörkum hægra megin og sendi út í teiginn þar sem Vladimir Tufegdzic skoraði með viðstöðulausu skoti, 1:1.

Skagamenn fóru í sókn, Þórður Þ. Þórðarson sendi fyrir mark Víkings frá hægri, Ásgeir Marteinsson skallaði boltann niður í markteiginn þar sem Garðar Gunnlaugsson var mættur og afgreiddi hann í netið, 1:2.

Skagamenn þéttu raðirnar eftir þetta og beittu skyndisóknum þar sem þeir hefðu hæglega getað skorað þriðja markið. Jón Vilhelm skaut í slá úr aukaspyrnu og Garðar slapp innfyrir vörn Víkings eftir sendingu Jóns en skaut beint á Róbert Örn Óskarsson í markinu.

Það tók Víkinga aðeins tíu mínútur að jafna metin í seinni hálfleik. Igor Taskovic nýtti sér mistök ÍA fyrir utan eigin vítateig, komst inní sendingu og gaf á Óttar Magnús Karlsson sem skoraði, 2:2.

Á lokamínútu leiksins kom svo sigurmarkið. Ívar Örn Jónsson fékk boltann frá Alex Frey Hilmarssyni og þrumaði honum í netið frá vítateigslínu, 3:2.

Víkingur R. 3:2 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Víkingar hirða þrjú dýrmæt stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert