Maður gerir það sem þarf

Ívar Örn Jónsson.
Ívar Örn Jónsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ívar Örn Jónsson var maður kvöldsins hjá Víkingum í Reykjavík en hann skoraði sigurmark þeirra gegn Skagamönnum, 3:2, í uppbótartíma þegar liðin mættust í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Víkingsvellinum.

Ívar fékk þá boltann á miðri vítateigslínunni frá Alex Frey Hilmarssyni og var eldsnöggur að afgreiða hann í netið með föstu skoti.

"Það var frábært að geta sett hann þarna í lokin. Ég fann strax að þetta var gott færi og þegar maður fær boltann á þessu svæði á vellinum verður maður að vera snöggur að skjóta. Ég lét því vaða og það gekk," sagði Ívar við mbl.is.

Hvað var vinstri bakvörður eiginlega að gera á þessum stað á vellinum?

„Að reyna að vinna leikinn! Það þurfti að gera eitthvað til að ná í þessi þrjú stig. Milos gefur mér frelsi til að taka þátt í sóknarleiknum svo þetta var svo sem ekkert nýtt, en maður gerir allt sem þarf til að vinna leiki. Þetta hafðist, heldur betur,“ svaraði Ívar að bragði.

„Við sköpuðum ekki mikið af 100 prósent sénsum, fyrir utan dauðafærið sem Viktor Jóns fékk, og vorum kannski ekkert allt of líklegir til að skora þótt við værum mikið með boltann í seinni hálfleik. Skagamenn vörðust vel og hefðu getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum. En við vorum með yfirhöndina í seinni hálfleiknum. Vissulega voru þeir hættulegir í einhver skipti þegar við vorum komnir framarlega á völlinn en það var frábært að ná að klára þetta og sækja þrjú stig í mikilvægum leik.“

Það skipti miklu máli að ná að jafna í 2:2 svona snemma í seinni hálfleik, ekki satt?

„Jú, það var mjög mikilvægt. Þá gátum við strax farið að spila upp á sigurinn. Við sóttum út frá því það sem eftir var leiks.“

Þið kláruðuð erfitt fimm leikja prógramm og nú var komið að því að spila við liðin sem talin voru lakari. Var ekki gríðarlega mikilvægt að byrja þann kafla með sigri?

„Heldur betur. Nú erum við komnir með tvo sigra í röð sem er frábært. Það er rétt, við byrjuðum á erfiðu prógrammi en ég held að við höfum sýnt góða frammistöðu í þeim leikjum þótt við hefðum viljað vinna fleiri. Við sýndum að við erum ekkert í þessu bara til að leika okkur og þar af leiðandi var virkilega mikilvægt að ná í þrjú stig í kvöld. Við erum komnir nær liðunum í efri hlutanum í deildinni, þar sem við viljum vera, og við ætlum að klifra upp töfluna,“ sagði Ívar Örn Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert