Engin hætta þótt þær hafi djöflast

Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari Stjörnunnar.
Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætluðum ekkert að leyfa þeim að hamast í okkur í byrjun heldur spila hörkuleik en þó af skynsemi og gerðum það frábærlega í dag með vel útfærðum leik svo ég er sáttur,“ sagði Ólafur Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnukvenna, eftir 3:0 sigur á Val í Garðabænum í dag.  Mikilvægur sigur í baráttunni um sigur í deildinni þar sem Garðbæingar eru efstir.

„Við áttum von á svona leik, við höfum séð Val spila og Valur hefur séð okkur spila.  Við vitum að Valsmenn eru með gott lið búnir að safna mörgum leikmönnum og ætla sér stóra hluti svo ég vissi að þetta yrði hörkuleikur og að við þyrftum að taka duglega á móti í byrjun leiksins.  Mér fannst markmaðurinn okkar frábær í dag, greip inn í allt sem þurfti, liðið og vörnin varðist eins og góð heild.  Þótt Valskonur hafi verið eitthvað að djöflast í byrjun þá var ekki nein stórkostlega hætta en svo fannst mér við taka leikinn yfir, skorum tvö mörk og síðan var barningur að sigla þessu heim í seinni hálfleik,“ bætti þjálfarinn við. 

Stjarnan er sem fyrr segir í toppsæti deildarinnar en björninn er ekki unninn.  „Við vorum í efsta sætinu fyrir hlé, nú er hléið búið og við erum aftur komin í efsta sætið.  Það hefur sýnt sig að allt getur gerst í þessari deild, hún er erfið og hefur aldrei verið eins jöfn og skemmtileg en þá skiptir máli að halda einbeitingunni og nota gömlu klisjuna að taka einn leik fyrir í einu. Það má ekkert misstíga sig, öll liðin hafa tapað stigum, sem gerist ekki á hverju ári en þessu hafa menn verið að bíða eftir en við getum ekkert hugsað um það, verðum bara að hugsa um okkur og halda einbeitingunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert