Þær refsa ef þær fá tækifæri til þess

Hörð barátta í leik Stjörnunnar og Vals.
Hörð barátta í leik Stjörnunnar og Vals. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég veit ekki hvað er hægt að segja um svona leik,“  sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, framherji Valskvenna, eftir 3:0 tap fyrir Stjörnunni í Garðabæ í dag.

„Ef horft er á spilamennsku liðsins í áttatíu mínútur þá er hún mjög góð og mér fannst við vera með þær en Stjarnan er með gott lið sem refsar þér ef það fær tækifæri til þess.  Það er samt mjög erfitt að meta þetta, við töpum 3:0 sem er vísbending um að við höfum verið verra liðið á vellinum en það var bara alls ekki þannig.  Við gefum þeim þetta upp í hendurnar á Stjörnuliðinu og það gerir út um leikinn. Það er ofboðslega svekkjandi að gera ekki betur í tveimur leikjum í röð,“ bætti Margrét Lára við en telur að lið sitt hafi ekki misst af lestinni um sigur í deildinni.

„Mér finnst deildin hafi sýnt að hún sé dulótt, lið eru að tapa stigum hér og þar svo þetta er alls ekki búið en miðað við frammistöðu okkar og spilamennsku í áttatíu mínútur finnst mér við hafa átt meira skilið en að tapa þremur stigum.  Fótboltinn er bara harður, við sjáum það út um allan heim og við verðum nú að standa vaktina allan tímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert