Högum okkur vel á Þjóðhátíð

Eyjakonur fagna sigrinum í dag.
Eyjakonur fagna sigrinum í dag. Ljósmynd/Páll Jóhannesson

Hún var brosmild og kát, Sigríður Lára Garðarsdóttir, miðjumaður ÍBV, eftir að Eyjakonur höfðu lagt Þór/KA í undanúrslitum Borgunarbikarsins í dag.

Leikurinn var spilaður á Þórsvelli við draumaaðstæður, logn og rigningu sem reyndar entist bara fyrri hálfleikinn. Eina mark leiksins kom í seinni hálfleik framlengingar þegar Cloe Lacasse lagði boltann út á Rebekah Bass sem þrumaði honum í netið. 

Á meðan samherjar Sigríðar Láru, Sísíar, létu öllum illum látum inni í klefa var stúlkan dregin afsíðis í viðtal.

„Þetta var þvílíkur baráttuleikur. Við ætluðum sko að hefna fyrir ófarirnar gegn þeim á þriðjudaginn þegar við töpuðum 2:0. Það er gríðarlega erfitt að koma hingað til að taka stig eða sigur svo þetta er mjög sætt. Við vorum alveg klárar í þetta frá fyrstu mínútu. Þór/KA er með sterkan framherja og við lokuðum vel á hana. En eins og ég segi þá var þetta mjög jafn leikur, baráttuleikur. Þór/KA er mjög gott lið og þétt. Það var því gott að skora þetta mark. Cloe er með þvílíkan kraft og snerpu og spilaði þennan leik mjög vel. Hún lagði upp markið og var að valda usla. Eina markmiðið okkar fyrir tímabilið var að komast í úrslitaleikinn í bikar og það gekk. Ég hef aldrei spilað svona leik og þetta er í fyrsta skipti í 12 ár sem ÍBV kemst í úrslit.“

Sísí var svo spurð út í eigin markaskorun en hún hefur skorað mikið í sumar. Hvernig má skýra það? „Já ég hef verið að skora óvenjumikið, það er satt. Ég hef bara verið að æfa vel og þjálfarinn hefur látið mig gera aukaæfingar. Þetta er bara að skila sér.“

Og hvernig á svo að haga sér á Þjóðhátíð þegar bikarúrslitaleikur er handan við hornið? „Vel,“ sagði Sísí eftir smá umhugsun, „við gerum það alltaf hvort eð er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert