Hræðilega súrt

Þór/KA beið lægri hlut fyrir ÍBV í dag.
Þór/KA beið lægri hlut fyrir ÍBV í dag. Ljósmynd/Páll Jóhannesson

Hann var þungstígur, fyrirliði Þórs/KA, eftir að Eyjakonur úr ÍBV höfðu slegið Akureyrarliðið út úr Borgunarbikarnum í dag. Liðin voru að keppast um að komast í úrslitaleikinn gegn Breiðabliki og eina markið kom seint í framlengingu. Það var því lítill tími fyrir Þór/KA til að bregðast við og jafna leikinn.

Blaðamaður gekk á Kareni Nóadóttur þar sem hún haltraði áfram dragandi á eftir sér þunga búningatösku liðsins. Greinilega var hún síðust úr klefanum, líklega ekki í fyrsta skipti sem það gerist.

„Þetta var hræðilega súrt. Bara súrt og svekkjandi. Við vorum svo sannarlega ekki slakara liðið. Þetta var svakalega mikill baráttuleikur, lokaður og lítið um færi. Þetta hefði getað dottið báðum megin. Þær hefðu orðið jafnsvekktar og við ef það hefði verið mark frá okkur sem kláraði leikinn. Við erum búnar að halda hreinu fjóra leiki í röð og spila varnarleikinn rosalega vel. Þess vegna er þetta aðeins meira svekkjandi (Þór/KA var búið að halda hreinu í 480 mínútur áður en markið kom). Við vorum búnar að standa allt af okkur í dag en svo læddist þetta mark inn.“

Þeir blaðamenn sem voru að fjalla um leikinn voru mjög hissa á hve skiptingar Þórs/KA komu seint í leiknum þar sem greinilegt var að nokkrir leikmenn voru alveg búnir. Hvað segir Karen um það?

„Já við vorum gjörsamlega búnar og fórum þetta bara á hausnum í framlengingunni. Það er kannski erfitt að taka skiptingar þegar leikurinn er í járnum. Við eigum alltaf séns á að setja hann. Svo þegar skiptingarnar komu þá komu þær vel inn, Katla og Magga. Núna erum við bara dottnar út og deildin tekur við. Auðvitað erum við svekktar og verðum það eitthvað áfram en það nær ekkert lengra. Það er bara að setja fókus á deildina og reyna að klífa upp þar. Við erum skammt á eftir toppliðunum og bíðum bara eins og hrægammar að þau misstígi sig.“

Nú var Þór/KA að fá nýjan leikmann sem kom vel út í þessum leik. „Hún kom mjög vel inn, var öflug og það er rosa flott fyrir okkur að auka breiddina í hópnum. En nú er það deildin sem við einbeitum okkur að en svo tökum við þennan helvítis bikar á næsta ári,“ sagði Karen að lokum, greinilega ekki algjörlega niðurbrotin og því stutt í húmorinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert