Koma botnliðin á óvart?

Víkingur frá Ólafsvík vann Breiðablik óvænt á Kópavogsvelli í fyrstu …
Víkingur frá Ólafsvík vann Breiðablik óvænt á Kópavogsvelli í fyrstu umferðinni í vor. Liðin mætast í Ólafsvík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm af sex leikjum tólftu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fara fram í kvöld en þar með hefst seinni helmingur deildarinnar. 

FH er með tveggja stiga forystu í deildinni, er með 22 stig, en Stjarnan er með 20, Fjölnir 19, Breiðablik 19 og Víkingur Ólafsvík 18 stig í næstu sætum á eftir. Viðureign Víkings Ó. og Breiðabliks er því sérstaklega áhugaverð en sigurliðið þar verður á hælum efstu liðanna eftir þessa umferð.

Síðan koma í einum hnapp ÍA með 16 stig, Víkingur R. með 15, Valur með 14, ÍBV 14 og KR með 13 stig. Næstu umferðir segja til um hvort einhver þessara liða ná að fylgja toppliðunum eftir eða dragast niður í fallbaráttu.

ÍA mætir ÍBV, Skagamenn hafa unnið fjóra leiki í röð á meðan ÍBV hefur fengið eitt sig í fjórum leikjum og þar getur því verið um afar mikilvægan leik að ræða fyrir bæði liðin hvað framhaldið varðar.

Fylkir er með 8 stig og Þróttur 7 í botnsætunum og staða beggja er afar erfið. Þau mæta auk þess toppliðum FH og Stjörnunnar í kvöld og gætu því verið komin í enn verri mál að tólftu umferðinni lokinni ef þau krækja sér ekki í stig.

Lokaleikur umferðarinnar fer svo fram annað kvöld en þá eigast við KR og Víkingur R.

Skoðum þessa fimm leiki í kvöld og söguna á bak við hvert einvígi fyrir sig:

ÍA – ÍBV á Akranesi klukkan 17

Þetta er 70. viðureign félaganna í efstu deild frá upphafi en þau mættust fyrst í deildinni árið 1969, nánar tiltekið 14. júní í Vestmannaeyjum. ÍA vann 3:2 þar sem Matthías Hallgrímsson skoraði þrennu fyrir Skagamenn en Ólafur Sigurvinsson og Viktor Helgason gerðu mörk Eyjamanna.

Frá þeim tíma hefur ÍA unnið 35 leiki liðanna, ÍBV 25, en 9 hafa endað með jafntefli. Markatalan er 122:101, ÍA í hag. ÍBV vann stórsigur, 4:0, þegar liðin mættust í Eyjum í fyrstu umferðinni í vor. Eyjamenn hafa hins vegar tapað fimm sinnum í síðustu sex heimsóknum sínum á Akranes.

Víkingur Ó. – Breiðablik í Ólafsvík klukkan 19.15

Þetta er fjórða viðureign félaganna í efstu deild frá upphafi en þau hafa unnið sinn leikinn hvort og gert eitt jafntefli. Markatalan er 3:2, Breiðabliki í hag.

Víkingur vann leik liðanna á Kópavogsvelli í vor, 2:1, þar sem Kenan Turudija og Þorsteinn Már Ragnarsson skoruðu fyrir Ólsara en Andri Rafn Yeoman fyrir Breiðablik.

Fjölnir – Valur í Grafarvogi klukkan 19.15

Þetta er 10. viðureign félaganna í efstu deild frá upphafi en Fjölnir sigraði 2:1 þegar þau mættust á Valsvellinum í fyrstu umferðinni í vor. Valur hefur unnið fjóra leiki liðanna, Fjölnir tvo og þrír hafa endað með jafntefli. Markatalan er 18:16, Valsmönnum í hag.

Þórir Guðjónsson skoraði bæði mörk Fjölnis í sigrinum á Val í vor. Hann kom til Grafarvogsfélagsins frá Val og hefur verið sínu gamla félagi erfiður en Þórir hefur skorað í þremur af fjórum síðustu viðureignum liðanna, alls fjögur mörk.

Fyrsta leik liðanna í efstu deild árið 2008 vann Valur 2:1. Helgi Sigurðsson og Pálmi Rafn Pálmason skoruðu fyrir Val en Ómar Hákonarson fyrir Fjölni.

FH – Þróttur í Kaplakrika klukkan 19.15

FH hefur ekki tapað fyrir Þrótti í átta síðustu viðureignum félaganna í efstu deild. FH vann 3:0 þegar liðin mættust í fyrstu umferðinni á Þróttarvellinum í vor og hefur unnið sex af þessum átta leikjum en tveir hafa endað með jafntefli. Þróttur hefur ekki skorað í fjórum síðustu leikjum liðanna, eða síðan liðin gerðu 4:4 jafntefli árið 2008.

Síðasti sigur Þróttar á FH var í Kaplakrika sumarið 2003 en þá skoraði Björgólfur Takefusa þrennu í sigri Reykjavíkurliðsins, 4:1. Af 17 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1976 hefur FH unnið níu, Þróttur fjórar en fjórar hafa endað með jafntefli. Markatalan er 35:19, FH í hag.

Fyrsti leikur liðanna í deildinni var í Laugardalnum árið 1976 en FH vann þar 2:0 þar sem Magnús Teitsson og Jóhann Ríkharðsson skoruðu mörkin.

Fylkir – Stjarnan í Árbænum klukkan 20

Þetta er 20. viðureign félaganna í efstu deild frá upphafi en þau mættust þar fyrst árið 1996. Þá skoraði Helgi Björgvinsson sigurmark Stjörnunnar, 1:0, í Garðabæ. Stjarnan hefur unnið 11 af þessum leikjum, Fylkir 5 en þau hafa þrisvar skilið jöfn. Markatalan er 31:24, Stjörnunni í hag.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði bæði mörkin í 2:0 sigri Stjörnunnar þegar liðin mættust í vor. Stjörnunni hefur gengið vel í Árbænum undanfarin ár og fengið þar 13 stig af 15 mögulegum í fimm síðustu heimsóknum sínum þangað. Í fyrra vann Stjarnan 2:0 í Árbænum þar sem Jón Arnar Barðdal og Halldór Orri Björnsson skoruðu mörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert